Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Ertu einsýn, Gróa?
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Ertu einsýn, Gróa?“
„Ertu einsýn, Gróa?“
Það ræður að líkindum að bræðurnir sem lengst bjuggu á Bakka hafi verið giftir og „átt börn og buru“. Þó er einskis þessleiðis getið um annan þeirra, en konan hins hét Gróa. Einu sinni fór Gróa austur í Austurfljót og kom ekki til baka fyrr en daginn eftir; er þá bóndi hennar á ferð og mætir henni við Dælarós; hann er nálægt Barði. Starir þá bóndi nokkuð framan í hana unz hann segir: „Kvurní andskotanum, ertu einsýn, Gróa?“ Gróa hafði misst augað í barnæsku, síðan gifzt bónda og voru þau nú búin að vera saman í tuttugu ár, en ekki hafði hann veitt þessu eftirtekt fyrri. Hér af er kominn málshátturinn: Kvurní andskotanum, ertu einsýn, Gróa? (al. Hvort ertu einsýn, Anna? eða Kvurní déskotanum, ertu einsýn, Anna?)