Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Feðgarnir Ólafur og Kjartan
Feðgarnir Ólafur og Kjartan
Kjartan faðir Ólafs Kjartanssonar hafði borið hallt höfuðið þegar hann gekk. Drengir nokkrir sögðu Ólafi að höfuð á föður hans hefði verið tekið af honum og sett á hann aftur og við það skekkzt. Ólafur var á tveim áttum að trúa þessu þangað til einu sinni að hann gekk með föður sínum og gætti vandlega að höfuðburði hans og mælti: „Satt er það faðir minn, skakkt er það nokkuð.“
Einu sinni bað Ólafur Kjartansson Erlend prófast á Hrafnagili[1] ölmusu. Prófastur var á förnum vegi og hafði ekki nema einn túskilding í vasa sínum; fær hann Ólafi skildinginn og segir: „Það er lítið, Ólafur minn.“ Ólafur tók við og mælti: „Meir en nóg af yður, ef margir gerðu nú eins og þú.“
Ólafur þessi Kjartansson fékkst oft við kveðskap, en kom þó aldrei bögu saman sem nokkurt lag væri á. Hin skásta sem hann orti er vísa þessi, þá er hann átti stúlku ólétta:
- Barnið sem að innan í er
- Ingiríði minni
- Kjartan heitir og blómann ber
- þegar hann verður skírður.
Einu sinni kom Ólafur að Bæsá og gisti þar hjá Jóni presti Þorlákssyni;[2] mun presti hafa þókt gaman að spila með hann. En Ólafur sagði frá því á eftir að þeir hefðu reynt sig að yrkja, og þá er hann var aðspurður hvernig það hefði farið lét hann vel yfir og mælti: „Báðir gátu nokkuð.“ Af svarinu má ráða að hann hafi ekki þókzt verða stórt undir í kveðlingunum.