Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Fimm fingra saga
Fimm fingra saga
Þess er getið að í afliðnum hinum pápiska sið hafi verið einn prófastur í Norðurlandi á hverjum frásaga þessi byrjar, sem hafði mikið orð á sér hvílíkt afbragð hann var í andligum efnum, þar með orðlagður ræðumaður. Ekki er getið nafns hans. Dóttur átti hann eina þá er orðin var gjafvaxta er saga þessi byrjar. Þar í hans umdæmi var unglingspiltur einn sem fátæktar vegna var á verðgangi um sóknina mjög fátækliga klæddur, í grárri brók og úlpu, þar með gráa kollhúfu á höfði. Þessum dreng hafði prófastur fyri litlar sakir frávísað nautn heilags sakramentis, en hann fátækur og aðstoðarmannalaus gat ekki náð hylli prófastsins enda er þess ekki getið hann hafi mjög eftir henni leitað. Einn af góðkunningjum drengsins hvatti hann til ef hann gæti að gjöra prófastinum nokkurn hnjóð svo lítið á bæri.
Það var siðvenja hjá prófasti sem var auðmaður að hafa hanakjöt á borðum títt og oft. Það bar til eitt kvöld um dagsetursskeið að barið var að dyrum á staðnum. Prófastur sendi dóttur sína fram og bað hana forvitnast hver dyra kvaddi hvað hún gjörði og spurði hver úti væri. Sá anzaði er úti var og kvaðst heita Hænsnaspað og bað hana skila til prófasts að lofa sér að hvíla þar af um nóttina. Hún fann föður sinn og sagði maðurinn beiddi að lofa sér að vera. Hann kvað slíkt til reiðu – „en hvað heitir hann?“ en hún sagðist ekki hafa munað eftir að spurja hann nafns. Hann atyrti hana fyri það og sagðist þó hafa sagt henni það – „og farðú, heillin mín! og vita hver kominn er,“ segir hann við konu sína. Hún fór fram og spurði þann að nafni er úti var, en hann sagðist heita Loðinkússa. Hún fór inn aftur og þarf ekki að orðlengja það að allt fór á sömu leið milli prófasts og konu hans nema hvað hann var allt harðorðaðri sem honum þótti henni minni vorkunn og kippti skóm á fætur sér og gekk fram, spurði gestinn að heiti eftir það hann hafði boðið honum inn. Þá kvaðst gesturinn heita „Fimm fingrum í rass“. Prófasti varð ekki að orði, en gekk inn og hinn eftir honum. En er hann kom í baðstofu bað hann þær hjúkra gestinum.
Þar var hænsnaspað á borðum um kvöldið. Svo var þar húsum skipað að þil var milli rúms þess er þau hjónin skipuðu, en þar fyri utan var rúm prófastsdótturinnar öðrumegin dyra, en hins vegar þar á móti var gestinum hvíla búin. Þá var hann í gráu fötum sínum. En er menn voru fyri stundu gengnir til rekkju æpir prófastsdóttirin upp og segir: „Hænsnaspað stingur mig í kviðinn!“ Prófastur var farinn að móka og svarar heldur styggt og segir hún hefði ekki þurft að éta sig svo fulla, hún væri svo til aldurs komin að líkligt væri hún kynni magamál sitt. Hún æpir aftur sýnu hærra á sömu leið. Hann verður þá byrstari og í þriðja sinn þá rís konan upp á olnbogann í snatri og segir: „Bíttí nú! Það skyldi ekki vera hann Loðinkússa kominn upp í hjá henni?“ Hann bað hana þegja sem bráðast. Líður svo nóttin af í þögn það sem eftir var. Um morguninn var gesturinn allur í burtu. Segir ekki af honum fyrst um sinn. En er tímar liðu fór prófastsdóttirin að þróast í gerðum og svo kom loks að hún fæddi barn frítt og fagurt. En er prófastur frétti eftir föðurnum kvað hún þann eiga er gisti hjá þeim um nóttina. Varð hann þá æfur af reiði og lagði mestu fyrilitningu á dóttur [sína] og barn hennar. Þar eftir fóru aðrir. Liðu svo fram tímar að ekki bar til tíðinda.
Að mörgum árum liðnum bar svo til að skip kom af hafi fyri norðan land. Þar var á einn virðingamaður framar öðrum og var það sagt hann mundi eiga skipið að mestum hluta. Skipverjar dvöldu hér við land. Þessi kom að einum bæ í kirkjusókn prófastsins. Þar bjó fyri bóndi einn ríkur að jörðum og lausum aurum og að flestu hinn merkiligasti í sveitinni. Hann átti dóttur eina barna og var hún mennt flestum konum betur. Þar dvaldi hann og varð þeim rætt um menn hverir merkiligastir væri; þar á meðal gat bóndi þess að prófastur væri hinn bezti klerkur og það honum hefði aldrei á vorðið í sínum verkum og mundi aldrei verða. Hinn sagði það mundi þó verða. Þannig jókst orð af orði þar til þeir vöddust; lagði komandi í veð svo hundr[uð]um skipti í útlenzkum varningi og lausum eyri, hinn þar á móti mestalla sína fasteign, og bundu þetta fastmælum. En nú fóru þeir til kirkju á næsta helgum degi. Getur ekki framar um það þar til komið er að því að prófastur boði söfnuðinum b[l]essanina af stólnum. Þá verður honum litið fram í kórdyr; þar sér hann mann í grám klæðum; verður honum þá orðfall, horfir á hann og kennir þar gest sinn; verður honum þá mikið í hug og kallar á söfnuðinn þannig og mælti: „Grípi nú allir Fimm fingrum í rass!“ Þannig kallar hann í þrjár reisur, en að aflíðandi hinu síðasta kalli hrópar upp ein kerlingin í framkirkjunni og segir: „Herra minn, ég kem ekki inn nema þremur!“ Rak þá meginhluti safnaðarins [upp] hlátur, enda var þá grámaðurinn horfinn og embættisgjörðinni lokið, en fyri þessi hneisuligu veizluspjöll var prófasti vikið frá embætti alla tíð. En að þessu umliðnu kom þeim saman um það bóndanum og hinum aðkomna eftir tilmælum hins síðarnefnda að hann réðist þangað og gekk að eiga dóttur hans og lifðu þau öll saman til elli í nægtum og góðu samlyndi. Barnsmóðir hans og barn voru þá lifandi og tók hann barn sitt heim til sín, en gifti hana vænum manni. Og ljúkum vér hér með þessari sögu.