Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Fjórar skónálar fyrir gullkamb

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Fjórar skónálar fyrir gullkamb

Einu sinni var karl og kerling í koti sínu; þau höfðu eytt öllu sínu og áttu nú ekki annað eftir en einn gullkamb sem kerling hafði laumað á. Nú fær hún karlinum kambinn og biður hann að kaupa þeim forða. Karlinn fer af stað og gengur nú þangað til hann mætir manni er leiðir kú. „Falleg er kýrin þín, kunningi,“ segir karlinn. „Fallegur er líka kamburinn þinn,“ segir komumaður. „Viltu býtta?“ segir karlinn. Komumaður lézt þess albúinn og höfðu þeir síðan kaupin. Heldur nú karl áfram þangað til hann mætir öðrum manni er rak tvo sauði. Karl ávarpar hann og segir: „Fallegir eru sauðir þínir.“ „Já, en falleg er líka kýr þín, karl minn,“ segir komumaður. „Viltu býtta?“ segir karl. „Já,“ segir komumaður og býttuðu þeir síðan. Var nú karl hróðugur og hélt að nú gæti [hann] klætt sig og kerlingu sína. Ennþá heldur hann áfram þangað til hann mætir manni er hefur með sér fjóra hunda. „Fallegir eru hundar þínir,“ segir karl. „Já, en fallegir eru líka sauðir þínir,“ segir komumaður. „Viltu býtta?“ segir karl. „Já,“ segir komumaður og býttuðu þeir síðan. Þótti nú karli vænt um og hélt, að nú gæti hann rekið frá túninu. Heldur hann nú ennþá áfram þangað til hann kemur að bæ einum; var bóndi þar að smíða skónálar í smiðju. „Fallegar eru skónálar þínar, bóndi,“ segir karl. „Fallegir eru hundar þínir,“ segir bóndi. „Viltu býtta?“ segir karl. Bóndi játaði því og lét hann fá fjórar nálar fyrir hundana. Gladdist karl nú mjög og þóttist hafa fengið góð kaup og hélt að nú gæti kerling nælt undir skó sína. Heldur hann nú heim á leið; varð þá fyrir honum lækur er hann stökk yfir, en í því duttu nálarnar ofan í lækinn og kom hann tómhentur heim. Hann sagði kerlingu kaupskap sinn og þótti henni heldur þungt að missa nálanna, og fóru þau því bæði á stað og börn þeirra að leita þeirra. Þegar þau komu að læknum stungu þau öll höfðum ofan í lækinn til að vita hvert þau sæju ekki nálarnar, og drukknuðu öllsömun.