Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Galdra-Pétur

Síra Benidikt Pálsson á Stað á Reykjanesi[1] var eitt sinn sóktur í sókn sinni til að þjónusta kerlingu sem Kristín hét. Hann átti reiðhest gamlan gráhélóttan að lit sem nefndur var Galdra-Pétur. Prestur reið hestinum í ferð þessa, kemur á bæ kellingar og hittir hana; hún tekur tveim höndum móti prestinum og meðal fleira mælir svo við hann: „Ég ætla að biðja yður prestur minn góður að tala nú við mig um guðs náð, fyrirgefningu syndanna og eilíft líf. En eftir á að hyggja, hvað er hann gamall hann Galdra-Pétur?“ „Hann er kominn undir þrítugt,“ mælti prestur, „en var það ekki annað sem þú vildir ég segði þér?“ „Nú,“ mælti kerling, „hvornig spyrjið þér prestur minn, ég sagði yður það áðan.“

  1. Benedikt Pálsson (1723-1813), bróðir Bjarna landlæknis og sr. Gunnars skólameistara og skálds, fékk Stað á Reykjanesi 1771 og hélt til dauðadags.