Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Gamli bóndinn og unga konan

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Gamli bóndinn og unga konan

Gamall bóndi átti unga konu, væna að yfirlitum. Þau bjuggu í þjóðbraut og áttu reisulegt bú og var hjá þeim gistingastaður allra heldri manna er fóru um veginn, og gekk húsfreyja sjálf þá jafnan um beina og ræddi glaðlega við gesti sína. Gafst bónda lítt að því og svo varð að hann grunaði hana um trúleik við sig, einkum þá er presturinn eða sýslumaðurinn voru á ferðinni. Þótti honum ekki svo búið vera mega. Fer hann eitt sinn til sýslumanns síns og tjáir honum grun sinn, en getur ekkert sannað. Sýslumaður tók vel máli hans og kvaðst kunna sér gott ráð honum til handa er væri það að samrekkja ekki konunni í full fjögur ár og mundi honum á þeim tíma verða auðvelt að komast eftir því hvort konan væri honum ótrú eður ekki. En er karl heyrði þetta ráð mælti hann: „Þó það ætti að gilda líf mitt þá get ég ekki þetta gjört.“ „Þú verður þá að huggast heima hjá þér,“ mælti sýslumaður.