Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Gistingin á Hólum
Einu sinni gistu Bakkabræður á Hólum í Hjaltadal. Vildu þeir um morguninn hraða sér á stað til að ná heim um daginn, en létu þó til leiðast að bíða eftir heitum graut sem þeim var boðinn um morguninn. Þegar grauturinn kom var hann svo heitur að þeim kom saman um að það væri ógjörningur að bíða eftir að hann kólnaði svo að hann yrði étandi; en eins affaragott mundi verða fyrir sig að gína yfir gufunni. Taka þeir nú það ráð að þeir gapa yfir henni unz þeir hugðu komna saðning sína. Ríða þeir svo á stað. En þegar þeir eru komnir út hjá Sleitustöðum sem nú er yzti bær í Hólasókn, hefst annar þeirra máls á því að þeim hafi gleymzt að þakka fyrir matinn. Snúa þeir þá til baka heim að Hólum til að þakka fyrir matinn.