Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Grímur Bessason og guðspjöllin
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Grímur Bessason og guðspjöllin
Grímur Bessason og guðspjöllin
Grímur prestur Bessason á Hallormsstað var skáldmæltur, en jafnan níðskældinn. Eitt sinn var það að Brynjúlfur biskup Sveinsson[1] átti tal við hann og ámælti honum harðlega fyrir það að hann misbrúkaði skáldskapargáfu sína til að yrkja klám og níð, honum bæri heldur að verja henni til að kveða um andleg efni guði til dýrðar og kristni hans til uppbyggingar. Grímur kvað það satt vera, en kvaðst ekki vita hver yrkisefni hann skyldi taka sér, því margir séu búnir á undan að kveða svo mikið af því. „Leitaðu fyrir þér í guðspjöllunum,“ mælti biskup, „og muntu þar finna nóg yrkisefni.“ Grímur hét að gjöra það, en til að sýna biskupi hvernig sér mundi farast það kvað hann:
- „Eg tek þar til sem andskotinn
- í gjörði fara svínstetrin;
- öllum saman stakk hann
- ofan fyrir bakkann,
- helvítis hundurinn.“
Biskup bað hann kvæði ekki meira út af guðspjöllunum.
- ↑ Svo hdr. Brynjúlfur dó 1675, en Grímur 1785!