Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Guð straffar þagmælskuna
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Guð straffar þagmælskuna
Guð straffar þagmælskuna
Einu sinni var ógnarlega kjöftugur karl sem alltaf var eitthvað að mærða. Veðjuðu piltar nokkrir eitt sinn við hann um það að hann gæti ekki þagað heilan dag og hétu honum spesíu ef hann gæti það. Karli gekk öllum vonum betur að þegja svo hinir fóru að verða hræddir um hann mundi vinna. Leituðu þeir ýmsra bragða að koma honum til að tala. Seinast fóru þeir að segja hvor öðrum sögur um það að þeir sem lengi þegðu misstu stundum málið. Þá rauf karlinn þögnina og mælti: „Ekki þori ég að þegja lengur; ég veit ekki nema guð minn góður straffi mig þá og taki af mér málið.“ Tapaði hann þá veðinu þó hann héldi málinu.