Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hér hafa þeir hitann úr
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
„Hér hafa þeir hitann úr“
„Hér hafa þeir hitann úr“
Einu sinni var kerling í koti við sjó. Hún hafði oft heyrt sjómenn segja að þeim væri ekki kalt þó þeir væru á sjó í kalsaveðri; einhver hafði og sagt henni hvernig á því stæði og að þeir hefðu hitann úr árarhlumminum. Einu sinni þegar henni var sem kaldast og þoldi ekki við í kotinu sínu tekur hún sig til og eigrar ofan að sjó, bröltir þar upp í eitt skipið sem uppi stóð með árum, sezt á eina þóftuna, tekur sér ár í hönd og leggur í ræði. Þar situr hún við og heldur um árarhlumminn, en þeir sem fram hjá gengu heyra að hún er að staglast á þessu: „Hér hafa þeir hitann úr.“ En morguninn eftir fannst hún steindauð og beinfrosin við árarhlumminn og er ekki búin enn í dag að fá hitann úr honum.