Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hann heitir djöfull og andskoti
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Hann heitir djöfull og andskoti“
„Hann heitir djöfull og andskoti“
Gunnar prófastur Pálsson heyrði frá sagt kellingu einni í sókn sinni að hún væri mjög blótsöm. Við húsvitjun tók hann tali kellinguna og spurði að spurningum nokkrum, og leysti kelling þær sæmiliga og með siðsömum orðum. Prófastur spyr hana hvað sá vondi heiti. Kelling skildi meininguna og nefnir rækalla og svo við ítrekun spurningarinnar skolla og Satan. En er prófasti líkuðu ekki nöfn þessi og innir til hvort hún viti ekki önnur fleiri sem væru þó í ritningunni og öðrum guðsorðabókum fór kellingu að leiðast og segir: „Hann heitir djöfull og andskoti og á heima í helvíti, og taktu þar við hönum.“