Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Heilagur andi í frosthörkum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Heilagur andi í frosthörkum

Karl einn fór að sækja eld um vorið í frosti og hörkum. En er hann kom heimleiðis með eldinn sér hann hvar skógarþröstur situr á hríslu og er að syngja. Honum þókti fuglinn fallegur og atlaði þetta mundi heilagur andi sendur til sín í dúfulíki, stekkur af fagnaði ofan af fararskjóta sínum og hneigir sig í auðmýkt fyrir þrestinum og tekur ofan hattinn. Við það flýgur hann hríslu af hríslu, en karl á eftir með hattinn í hendinni. Gekk þetta lengi þangað til hann flýgur ofan af fjallsbrún hárri og ofan í djúpan dal. Þá segir karlinn sem síðan er að orðtæki haft: „Ekki vinn ég það fyrir heilagan anda að drepa mig.“ Eftir það sneri hann aftur og til fararskjóta síns. Var þá dauður eldurinn, en hann sá hvar rauk af hrossataðinu á ísnum. Atlaði hann það eld vera, lagðist niður og púaði í hann af öllu afli og sagði: „Þar skal eldur af verða.“ Gekk það svo lengi þar til skeggið fraus við ísinn og lá hann þar dauður eftir.