Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Heilræði voru þó heimskyrði þætti

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Heilræði voru þó heimskyrði þætti“

Einu sinni er svo sagt að Jón biskup Vídalín kæmi á ferðum sínum á bæ einn og var þar ekki fólks fyrir nema barn eitt lítið stálpað. Biskup litaðist um á hlaðinu og vék sér að hjalli er stóð þar. Í hjallinum voru ýmisleg matvæli og fleira. Barnið sér að biskup gætir inn í hjallinn. og segir: „Steldu ekki úr hjallinum stóri maður.“ Sveinar biskups fundu að þessu við barnið, en biskup bannaði þeim það og mælti: „Heilræði vóru þó heimskyrði þætti.“