Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hundur fyrir altarinu og andskoti í stólnum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Hundur fyrir altarinu og andskoti í stólnum“

Eitt sinn hitti biskup frá Skálholti á ferð sinni um Austurfirði bónda nokkurn, tók hann tali og spurði hvernig prestur hans væri. Bónda var vel til prestsins og vildi hrósa honum og mælti: „Ekki þarf þess að spyrja, herra, hann er hundur fyrir altarinu og andskoti í stólnum.“