Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hver hefur þig hingað borið

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Hver hefur þig hingað borið“

Einu sinni sat bóndi nokkur með öllum heimamönnum sínum uppi á baðstofupalli í rökkrinu. Gaus þá þar upp allt í einu óþefur mikill, og vildi enginn við það kannast að hann væri valdur að. Skipaði bóndi svo að kveikja, og þegar komið var með ljósið lá jarl einn mikill á pallinum. Bauð bóndi þá heimilisfólkinu að ganga þar að og skyldi hver um sig segja: „Hver hefir þig hingað borið, herlegur fólinn, dólinn?“ Þetta gerðu allir bæjarmenn nema kerling ein, hún var treg til þess; þó fór hún þegar bóndi skipaði henni það með harðri hendi. En þegar kerlingin mælir sömu orðum og hinir hoppar jarlinn upp á nefið á henni og segir: „Þú, þú.“ Þóktust þá allir vita hver valdur væri óþefsins; en bóndi þessi var talinn margkunnandi.