Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Kláravín
Kláravín
Einu sinni var förukerling. Hún kom á bæ til fátækrar konu. Konan vildi gera henni gott og sókti henni fram mat að borða meðal hvörs var smér. En þegar förukelling er búin að borða, þá segir hún við konuna: „Nú smakka ég ekki smér fyrr en ég kem í Himnaríki.“ – „Í Himnaríki! Ertu vitlaus,“ gegnir konan, „þar sem aldrei er strokkað.“ „Er þar aldrei strokkað?“ segir kellingin; „ég átti svo bágt sem allir vissu í mínum búskap og bar ég þó aldrei skjaldnar í strokk en einu sinni og tvisvar á hvörju einasta sumri, og bjó ég þó í hálft annað ár. – Nú, hvað er þá haft til viðbitis þar, skepnan mín?“ „Til viðbitis,“ svarar konan; „þú ert víst lærð, þú ert vel að þér, ég heyri það. Hefurðu ekki heyrt hvörnig stendur í vessinu:
- Kláravín, feiti, mergur með
- mun þar til rétta veitt.“
„Kláravín,“ svarar kellingin; „ekki legg ég mér það til munns, kláravínið að tarna. Ég man það enn, í ungdæmi mínu var drepinn klár; hann var soðinn upp úr skinni og átti að narra ofan í mig af honum seyðið, en ég er ekki farin að drekka það enn, og þarf ég ekki að sækja það þangað. En – ja, mun þar til rétta veitt, ekki lengur? Þar verður þá sannarlega einhvör matarbreyting eftir réttirnar.“ Konan svarar: „Þá kemur nú til, blessuð mín, blessað slátrið eftir réttirnar, lundabaggarnir, lifrarpylsurnar, blóðmörinn, kjötsúpurnar og sviðin.“ – „Nú, svo, með því móti,“ svarar kelling; „það er þá ekki annað, skepnan mín, en ég snáfi þangað eins árs tíma fyrir það fyrsta, ég fer þá burt þaðan aftur ef mér ekki líkar.“ Konan segir: „Hvört ætli þú farir þá, blessuð mín?“ Kellingin: „Hvört ætli ég fari? Ég held ég fari norður í Kelduhverfið mitt aftur, þangað sem ég er fædd og uppalin; þar hef ég lengst verið og þar hef ég mestur maðurinn orðið.“ Konan: „Heldurðu þú komist þangað, blessuð mín?“ Þá svarar kelling: „Ég komist þangað! Ég hef farið lengra en hérna úr Himnaríki[1] og norður í Kelduhverfið. En kvíði ég fyrir að komast yfir hana Steingrímsfjarðarheiði, – komist ég það, þá fer ég út alla Langadalsströnd, út Snæfjallaströnd og út að Stað í Aðalvík; svo ríð ég henni Bleikálu minni yfir Ísafjarðardjúp til Stigahlíðar og þá er ég komin á Langanesið mitt til hans séra Halldórs míns prófasts á Sauðanesi, og hann sér þá víst eitthvað um mig, blessaður.“
- ↑ Kellingin hélt Himnaríki væri einhvör kotbær skammt þaðan sem hún var nú komin. [Hdr.]