Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Konan sem afsakaði sig í sænginni

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Konan sem afsakaði sig í sænginni

Einu sinni var hér á landi kona nokkur er afsakaði sig við mann sinn þá hann vildi veita henni rúmlögn. Talaði hún þá þessum orðum: „Eigi megum við þetta; við eigum að óttast og heiðra guð, því í kvöld er laugardagsaftann og sómir það ei svo nærri helginni.“ Á sunnudaginn leitaði hann þess. Hún mælti: „Nei, sunnudagurinn tilheyrir heilagri þrenningu og eigum við að liggja kyrr.“ Á mánudaginn hafði hann þetta fram á. Hún mælti: „Mánudagurinn tileinkast þeim heilögu og má það því ei á þessum degi.“ Á þriðjudaginn bauðst hann enn fram konu sinni. Hún mælti: „Þetta er heilagra engla dagur og verður hann hindrunarlaus að vera.“ Á miðvikudaginn bauð hann henni sig fram. Hún mælti: „Á þessum degi var Kristur seldur og má það því ekki.“ Á fimmtudaginn gjörði hann sína vöru fala. Hún mælti: „Á þeim degi sveittist Kristur blóðinu.“ Á föstudaginn krafðist bóndi rúmréttar síns. Húsfreyja sagði: „Á þessum degi var Kristur píndur og hæfir ei í dag að ergjast.“ Bóndinn sá að enginn dagur var til máta konu hans. Þess vegna fór hann og sókti sér heimuglega stúlku og lagði hana niður í annað rúm sem nærri var hjónarúminu, fór og afklæðir sig. Í þessu kemur kvinna hans í húsið og sá hvað verða ætlaði; tók hún því að deila og banna þetta. Maðurinn sagði: „Kona mín góð, þú ert sannheilög, en ég og þessi stúlka erum hneigð til synda, þess vegna eigum við vel saman.“ Þá mælti húsfreyja: „Nei ekki, svo fái ég þetta fyrir guðhræðslu mína þá fari hún vel, ég legg hana þá frá mér, því ég gef ei öðrum brauð frá eigin munni mínum. Eftir þetta skal ég ei halda svo marga heilaga daga.“