Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Konan sem ekki gat sofið
Konan sem ekki gat sofið
Einu sinni var kona ein sem þjáðist svo af svefnleysi að henni kom varla nokkurn tíma dúr á auga. Reyndi hún ýms meðöl og frá ýmsum nærfærnum, en ekkert dugði. Loks biður hún blessaðan prestinn sinn að finna sig. Prestur kemur til kerlingar og fer að spjalla við hana um ýmislegt; þar á meðal spyr hann hana hvað hún hafi viljað sér. Kerlingin segir þá presti hvers kyns er: að hún þjáist af svefnleysi og hafi engin ráð dugað sér hingað til, en nú ætli hún að reyna að biðja prestinn sinn að lesa fyrir sig einhverja góða bæn; „því,“ segir hún, „mér hefir oft sofnazt vel undir ræðum yðar.“ Þegar prestur heyrði erindið fór hann heim aftur án þess að hafa haldið eða lesið nokkra bæn fyrir kerlinguna. En ekki er getið um heilsu hennar eftir þetta.