Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Mig langaði til að sjá svínið

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Mig langaði til að sjá svínið“

Prestur nokkur keypti svín og hafði heim til sín; þetta fréttist brátt um sóknina og fjölmennti fólk venju framar við kirkjuna eftir það svínið kom. Kelling ein var í sókninni svo hrum að prestur hafði í nokkur ár orðið að ómaka sig til að þjónusta hana heima, en nú kom hún til kirkjunnar. Prestur sér hana og segir við hana: „En hvað þú gazt farið að koma núna.“ „Já,“ segir kelling, „það var ekki eina erindið að heyra til yðar í dag, mig langaði til að sjá svínið áður en ég dæi.“