Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Missögn af Jóni karli
Missögn af Jóni karli
Einn ríkur bóndi í Auðkúlusókn er Jón hét fór af stað einn sunnudagsmorgun með barn til skírnar. En að hálfnaðri leiðinni þurfti Jón af hestbaki til þarfinda sinna og lagði hjá sér barnið, en gleymdi að taka það aftur þegar hann fór á stað. Reið hann svo tafarlaust það eftir var að Auðkúlu og óskaði eftir að fá að tala við prest sem strax lukkaðist. Svo var Jón lengi búinn að tala við prest út í alla heima svo honum var farið að leiðast að standa upp yfir Jóni; líka var þá fólk farið að koma til kirkju svo prestur spur Jón hvurt hann hefði ekkert erindi haft við sig annað en hlýða hjá sér messu. Þá mundi Jón fyrst eftir að hann hafði gleymt barninu á leiðinni og brá þá við það snarasta að leita að barninu, en fann það þá hvurgi og kom svo búinn að Auðkúlu um kvöldið þá fólk var flest komið af stað frá kirkjunni. Var þá prestur úti á hlaði þegar Jón kom. Spyr þá prestur hvurnin honum hafi gengið. Kvaðst þá Jón ei barnið hafa fundið sem ekki væri von til því hrafnar væru víst búnir með það. En svo vildi til að messufólk kom á eftir Jóni um morguninn sem fann barnið svo það var skírt um daginn, en prestur ávítaði Jón harðlega fyrir gáleysi sitt.
Sami Jón fór eina sunnudagsnótt á grárri meri sem hann átti og treysti vel á sundi og ætlaði fram í hólma í Svínavatni að stela þar eggjum. En sundið varð of breitt handa hryssunni svo Jón sá sér til óvænna. Tók hann því til bragðs að heita á kirkjuna að hann skyldi gefa henni þrjá hluti ef hann kæmist til sama lands aftur.
Karl náði landi með illan leik og enti svo heit sitt við kirkjuna með að bestilla handa henni altarisklæði, hökul og skilirí. Á altarisklæðinu begerði hann að stæði nafn sitt og Sigríðar sinnar og Jesú nafn seinast.
Svínavatn er skammt frá Auðkúlu.