Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Náðarmeðulin

Á tíma þeim þegar margir vóru hreppstjórar í hverri sveit bjuggu eitt sinn tveir hreppstjórar í Bjarneyjum; þar vóru og fleiri bændur. Svo bar við að prestur kom að húsvitja í eyjunum og vóru þá hreppstjórar báðir viðstaddir og sátu saman meðan á yfirheyrslunni stóð. Prestur spyr þá einn bóndann hver séu náðarmeðölin. Bóndagarmurinn þegir og hefur hann að líkum fáfróður verið, en prestur sér að hreppstjórinn annar brosir við, og víkur sér því með spurninguna að honum og segir: „Máske þér vilduð segja mér það hver séu náðarmeðölin?“ Hér kom sem fyrri þögn á móti. Þá ýtir hinn hreppstjórinn í nafna sinn og segir: „Segðu Guðs orð.“ Hann áræðir ekki að hafa þetta eftir, ýtir í hinn aftur og segir: „Segðú það sjálfur,“ en svo lauk að hvorugur þorði upp að kveða fyrir prestinum.