Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Oft er ljótur draumur fyrir litlu efni

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
„Oft er ljótur draumur fyrir litlu efni“

Einu sinni vaknaði kerling í rúmi sínu fyrir ofan karl sinn með gráti miklum. Karl leitaðist við að hugga hana og spurði hana hvað að henni gengi. Kerling sagði sig hefði dreymt ógnarlega ljótan draum. „Hvað dreymdi þig, skepnan mín?“ segir karl. „Minnstu ekki á það,“ sagði kerling og fór að snökta; „mig dreymdi að guð ætlaði að taka mig til sín.“ Þá mælti karl: „Settu það ekki fyrir þig; oft er ljótur draumur fyrir litlu efni.“