Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Og með þínum anda

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Og með þínum anda“

Einu sinni var djákni er fekk orð fyrir að sofa í kirkjunni meðan presturinn væri í stólnum. Einn sunnudag sem oftar messaði prestur og bar ekki neitt á svefni djáknans þar til prestur fór upp í stólinn, þá fór hann að sofa. En svo var ástatt að hænsni voru á prestsetrinu og vöppuðu þau út í kirkjugarðinn um messuna, en er þau koma að kirkjudyrunum galar haninn og við það vaknar djákninn og stendur upp og tónar við raust: „Og með þínum anda;“ var þá prestur í miðri ræðunni. Þetta varð að hinu mesta hneyksli fyrir söfnuðinn, en til viðvörunar djáknanum, því hann svaf aldrei framar í kirkjunni.