Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Presturinn og fermingarstúlkan
Presturinn og fermingarstúlkan
Það var einu sinni prestur sem bæði var ríkur og ágjarn og konan ekki betri. Hann lagði hjá sér tvö þúsund dali árlega. Hann vildi aldrei taka börn til spursmála nema fyrir borgun og aldrei kom svo neitt barn til hans að það hefði ekki peninga í höndunum.
Í sókninni var mikið ríkur bóndi; hann átti sér eina dóttir barna mikið fríða og vel að sér. Eitt sinn kom að þeim tíma að dóttir bónda átti að ganga til spursmála. Áður hún fer spyr kona mann sinn hvurt hann ætli að láta dóttir þeirra fara peningalausa. Hann kveður já við og segir að dóttir þeirra geti gengið til spursmála þó hún hafi ekki peninga, og svo fer hún til prests. Þegar prestur fer að spurja börnin þá hugsar hann sér til hreifings þegar að hann sér hana og hugsar að hún muni nú hafa eitthvað til að offra sér með sú arna. Svo setur hann öll börnin niður og hana hið næsta sér; svo draga börnin upp offur sín, en hún ekkert. Þá þyngist brún á presti, en fer samt að spurja þau. Meðal annars spyr hann hana hvurt hún hafi engvan karlmann séð sem henni hafi litizt betur á en aðra. Ekki segist hún geta neitað því að sér hafi litizt betur á einn ungling heldur en aðra. „Þá er það sama sem þú hafi drýgt hór með honum,“ – og frávísar henni, því hann gat ekkert annað fundið að henni.
Svo kemur stúlkan sneypt heim til foreldra sinna. Þá gengur kona til manns síns og segir sig hafi lengi grunað þetta að henni mundi verða vísað frá. Bóndi gegnir því litlu, en hún fór aldrei til spursmála um veturinn. En um vorið þegar átti að ferma hana biður bóndi konu sína að búa dóttir sína sem bezt hún geti því hún muni verða fermd í dag. Konan gerði það, en segir samt að það muni ekki verða þegar henni hafi verið vísað frá í vetur og hafi aldrei verið spurð í vetur. Hann anzar því litlu, en segir vinnumanni sínum að koma með vagn og hleður þar á góðum gersemum. Lætur hann keyra með hann að prestsgarði og biður hann að staðnæmast á tilteknum stað á móti gluggum prests og segir honum að aka honum heim aftur þegar langt sé komið messu. Hann kveðst muni koma á eftir með konu og dóttir. Þetta var um þær mundir sem prestur ætlar að ganga til kirkju. Þá sér hann vinnumann bónda sem hét Jakob. Hann fer til konu sinnar og segir henni frá vagninum og biður hana að taka vel á móti hjónunum og segja að það sé sjálfsagt að hann fermi dóttir þeirra. Svo koma hjónin og konan gjörir sem fyrir hana er lagt. Svo gengur fólk til kirkju og prestur fermir börnin, en hefur mest við dóttir bónda af öllum börnunum. Eftir messu fer prestur að hæla stúlkunni. Bóndi tekur því lítið, en flýtir sér af stað. Þá fer prestur til konu sinnar og spyr hana eftir auðæfunum úr vagninum. Hún segir að þau hafi nú ekki komið til sín enn. Þá reiðist prestur svo hann veit ekki sitt rjúkandi ráð og lætur sækja bónda. Bóndi bregður skjótt við og hittir prest, en prestur eys út mestu skömmum við bónda fyrir hvað honum hafi farizt illa við sig, en hann hafi gert vel við dóttir hans. Bóndi segir að hann hafi séð vagninn og auðæfin; það hafi verið það sama sem hann hefði meðtekið hann (auðinn). Hann segir að hann hafi frávísað dóttir sinni í vetur og sagt að það væri það sama að hún hafi séð manninn og litizt vel á hann eins og hún hefði drýgt hór með honum. Prestur sér að hann hefur ekki góðan málstað og þagnar, en bóndi borgar honum ferminguna sanngjarnlega og segir honum hvað hann hafi haft ranglega af öðrum, og prestur seldi aldrei að ferma börn framar.