Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Sagan af Stíg

Maður nokkur í Norðurlandi fór til sjóróðra suður á nes. Í Húnavatnsþingi var honum samferða skólapiltur sá er Stígur hét, sýslumannsson; atlaði hann í Skálholtsskóla. Þeir fóru leiðar sinnar þar til þeir komu að bæ þeim er næstur er heiðunum, síð um daginn. Var sprett af hestum þeirra og þeim heimiluð gisting. Þeim var matur gefinn, þar á meðal annars súrt skyr. Fólk svaf þar í rökkrinu og eins þeir félagar. Vermaðurinn svaf, en Stígur fór á fætur og fram í búr og tók súrt skyr í hönd sér og rjóðraði um andlit og hægri hönd félaga síns, lagðist síðan niður aftur og lézt sofa sem aðrir. En er kveikt var um kvöldið varð vermaðurinn fyrir sneypu af heimilisfólki og gekk engi betur fram í því að hæða hann en Stígur. Það umleið hann allt með þolinmæði. Þaðan fóru þeir og áðu á heiðunum og sofnuðu. En er Stígur var sofnaður reis vermaðurinn upp og tók snýtuklút úr kjólvasa Stígs, gekk síðan á völl og lagði af sér í vasaklútinn, braut honum síðan sem hófligast saman og lét aftur í vasann. Þaðan tóku þeir sig upp og héldu að Kalmanstungu, þar bjó nefndarmaður, og voru þar um nóttina. Um kvöldið fengu þeir spaðsúpu. Þar voru fleiri gestir og borðuðu allir til samans og húsbóndinn. Yfir borðum tók húsbóndinn upp vasaklút sinn og snýtti sér. Stígur vildi þá ekki verða minni og greip upp klút sinn og hristi úr brotunum. Hraut þá fúlgan í mörgum pörtum ofan í matinn. Varð Stígur nú fyri enn meiri smán og háði en hinn hafði orðið fyri skyrið. Um morguninn er vermaðurinn reis upp var Stígur allur í burtu með hest hans og færurnar á. Gengur hann á eftir þar sem Stígur hafði á undan farið þar til að hann kom að stað einum (aðrir segja Skálholti). Þar sér hann hesta þeirra Stígs á hlaðinu, en Stígur stendur við stofuglugga og styður höndum undir sig og horfir á borðgestina; því þar var fólk að brúðkaupi. Hann gengur að Stíg og grípur hann upp tveim höndum og slöngvir honum endilöngum inn um glugginn á borðin; hrynja þau niður með skvettugangi miklum. Hefir vermaðurinn sig nú í burtu með skyndi með hest sinn og færur; heldur nú leið sína suður á nes og skildi svo með þeim. Ekki er getið um þeir hafi fundizt félagar upp frá þessu.