Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Sveitatunglið og tunglið undir Jökli
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sveitatunglið og tunglið undir Jökli
Sveitatunglið og tunglið undir Jökli
Kerling ein er mest ævi sinnar dvalið hafði í sveitum fluttist út á Snæfellsnes. Hún undi þar illa hag sínum og saknaði margs úr sveitinni. Einu sinni kemur hún út um kveldtíma og sér tunglið; var það fárra nátta og mánabert. Verður henni þá að orðum: „Allt er það eins hérna undir Jökli, tunglið sem annað. Það er þó munur að sjá blessað sveitatunglið hvað feitt og bústið það er eða aumingann þann arna sem er skinhoraður; það er líka náttúrlegt því það er munur að lifa á mjólkinni og kjötinu í sveitinni eða sjóslöpunum hérna.“