Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Synd, dauði, djöfull og helvíti
„Synd, dauði, djöfull og helvíti“
Benedikt prófastur Árnason[1] í Dölum hafði þá venju að spyrja börn á kirkjugólfi úr messunni. Einu sinni sem oftar embættaði hann á Vatnshorni í Haukadal. Drengir nokkrir voru við kirkjuna og bjuggust við þessu og áttu sín á milli tal um það fyrir messuna að þeir skyldu bregða sér út þá presturinn væri kominn úr stólnum, og rifja upp fyrir sér það hver muna kynni úr predikuninni og hjálpa þeim sem ekkert myndi; bundu þeir nú þetta fastmælum. Sumir vóru drengir þessir vel gáfaðir, einkum einn sem Ólafur hét Sigurðsson frá Núpi sem síðar varð prófastur í Flatey, og Einar Einarsson, gáfumaður og skáld sem hreppstjóri varð í Miðdölum og bjó á Harastöðum. Einn var líka Bergþór Þorvarðsson sem eftir föður sinn varð bóndi á Leikskálum.
Á settum tíma komu drengirnir saman í kirkjugarðinum og þóktust lítið muna; kveður samt einn upp sem Erlendur hét og var hinum grunnhyggnari að hann myndi þó nokkuð, en vildi engum segja nema Ólafi. Þó varð það að hann sagði þeim öllum, en þeir báðu hann sjálfan hafa og kváðust mundu hafa einhver ráð, báðu hann samt verða fyrstan til svara þegar presturinn spyrði hvað þeir myndi úr messunni. Erlendur var hreykinn og hét því; gengu piltar inn við svo búið. Allt fór sem ætlað var; þegar prestur var búinn að spyrja úr kverinu segir hann: „Muni þið nú nokkuð úr messunni að segja mér piltar mínir?“ „Já,“ segir Erlendur. „Já, já, hvað er það, Erlendur minn?“ segir prestur. „Synd, dauði, djöfull og helvíti,“ segir Erlendur. „Já, já, það er gott þó það sé lítið,“ segir prestur, brá klútnum fyrir munn sér og gekk inn í kórinn. Var spurningum hans lokið þann daginn.
- ↑ Benedikt Árnason (1738-1825) var prestur á Kvennabrekku og í Hjarðarholti frá 1796 til dauðadags, prófastur í Dalasýslu 1801-1816.