Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Vinnumaður Snæfjallaklerks

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Vinnumaður Snæfjallaklerks

[Benedikt Þórðarson] prestur á Snæfjöllum (1835-1843) hélt vinnumann sem brugðið hafði búi og var þá sagan gjörðist nálægt fimmtugu að aldri. Maður þessi hafði mikla trú á draugum og vofum; bar honum líka margt þess kyns fyrir augu að hann sagði. Prestur sem minna þókti að slíku kveða henti oft gaman að sögum hans og gat á stundum fengið að sjá sömu vofurnar sem hann kvaðst séð hafa.

Um hausttíma í góðu veðri setti prestur fjöl yfir leiði í kirkjugarðinum og sást hún þar þegar komið var út úr bænum. Á fjölinni vóru stuðlar til beggja enda og upp af þeim knappmynduð höfuð. Maðurinn sá hvað gjörðist um daginn, en um kvöldið þá dimmt var orðið og búið að kveikja ljós í baðstofu gekk hann út og kom bráðum inn aftur felmtsfullur og með miklum dæsum mjög litverpur í andliti. Fólki í baðstofunni varð heldur bilt við að sjá honum svo mjög brugðið og tók að grennslast eftir orsökinni. Maðurinn sem aldrei var dulur lét hana strax upp, þá af honum rann mesta hræðslan: „Ég kom út úr bænum,“ sagði hann, „og varð mér litið þangað sem presturinn lét fjölina í dag og þókti mér kvikt í kringum hana, en víst um það“ – þetta var máltak hans – „þar vóru vofur að skoða fjölina, ekki veit ég hvað margar, en ég sá það glöggt að þær létu svona“ – og teygði hann þá ýmist höfuðið upp úr búknum eða þrýsti því niður í hann aftur til að sýna fólkinu hvernig vofurnar létu. „Sá ég hann sona glöggt nema við dagsbrúnina til hafsins; svei mér ef ég lýg.“ Hófst nú mikil umræða um mál þetta því kona mannsins og kelling önnur vissu að slíkt var mjög eðlilegt í kirkjugörðum, væri eitthvað við þeim rótað. Kvaðst kelling oft í ungdæmi sínu heyrt hafa margt voveiflegt frá því sagt og það myndi hún að amma sín sæl sem hefði þó séð fram fyrir nefið á sér, – „já, væru nú margar slíkar“ – hún hefði oft verið að segja sér sögur af því og vara sig við að fara aldrei út úr bæ einsömul eftir dagsetur, væri hún á kirkjustað. „Það er nú ekki verið að skipta sér um þetta við börnin núna, því fer sem fer, það er eins og annað síðan á aldamótunum, það sést einhvern tíma þó mínir fætur kólni.“ Nú var presti skemmt og lagði hann ekki orð til að spilla ekki samtalinu og fer út til að sjá draugana. Var þá sem hann vissi að stuðlahöfuðin sem báru yfir garðinn námu við litla dagsbrún við hafið. Loft var allt jafnþykkt, en lýsti undir til hafsins, draugarnir vóru stuðlahöfuðin, en hræðslan í manninum kom kvikinu á þau fyrir augum hans.

Öðru sinni bar svo til að prestur söng yfir líki í kirkjugarðinum; var það um háskammdegi, jörð var auð og þíða veðurs. Á vökunni um kveldið gjörði lognsnjó mikinn. Kom þá hinn fyrnefndi vinnumaður prests út og inn aftur ekki erindi feginn; kvaðst hann séð hafa mikla vofu á suðurhlið kirkjunnar eins og flygsu kolsvarta; í fyrstu hefði hún ekki verið fjarska stór, en því lengur sem hann hefði horft á hana því meir hefði hún magnazt og þanið sig út upp um þekjuna svo mjög að sér hefði blöskrað; yrði hann þó að segja það að hann væri ekki vanur að vera mjög skreppingsligur þó eitthvað óhreint bæri fyrir sig. Nú hefði hann samt orðið feginn að flýta sér inn og loka bænum, og vildi hann ráða fólkinu frá að hafa útgöngur um kvöldið, því illt gæti eitthvað af því hlotizt, vildi það ekki gegna sér. Prestur áræddi samt að fara út að sjá drauginn þó hinn letti þess og sá hann fljótt í sama stað. Kirkjan var öll hvít af lognsnjónum, en yfir stólglugganum var skúti nokkur á þekjunni og festi snjó ekki á skútanum og sá í hann svartan. – Þetta var nú allur draugurinn.