Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Vinnumaður og bóndadóttir

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Vinnumaður og bóndadóttir

Það var einu sinni bóndi; hann átti dóttur með konu sinni. Þegar hún var fulltíða beiddi hennar vinnumaður bónda; bóndi neitaði honum. Hann heitstrengdi þá að komast yfir hana hvunær sem hann gæti. Bóndi passaði hana svo vel að þetta tókst ekki í þrjú ár. Fjórða sumarið datt vinnumanni ráð í hug. Hann bjó til svo stórt sæti að hann gat ekki komið því upp sjálfur, og varð bóndadóttir að lyfta undir með honum, en bóndi stóð undir. Þetta gekk vel um stund og grunaði hann ekkert. Nú létu þau einu sinni upp fyrri baggann svo bóndi fór undir, en þegar hinn átti að koma á klakkinn seig hann niður aftur og kallaði vinnumaður til bónda og sagði það hefði slitnað sili, hann yrði að vera þolinmóður á meðan hann gjörði að honum. Bóndi stóð undir þangað til bagginn komst upp, en á meðan efndi vinnumaður heitstrengingu sína því silinn hafði raunar aldrei slitnað.