Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Máríatla

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Máríatla

Þenna fugl kalla sumir Máríátlu, sumir Maríuerlu og enn sumir „Maríu litlu“. Þegar heyrist til hennar fyrst á vorin er það víst að vænta að skip eru komin einhverstaðar við land frá útlöndum og er sagt að hún komi með þeim. Ef maður vill vita hvar hann muni dvelja næsta ár getur María litla gefið það í skyn og á maður þá að segja við hana þegar maður sér hana fyrst á vorin:

„Heil og sæl, María litla mín.
Hvar er hún svala systir þín?
Er hún í útlöndum að spinna lín?
Það mun hún vera, hún svala systir þín.
[ég skal gefa þér berin blá
ef þú vísar mér á
hvar ég vera á
í vor og sumar,
í vetur og haust.“[1]

Nú ef María litla flýgur upp á meðan er það vottur þess að hún vill ekki spá, en fljúgi hún ekki upp meðan þetta er mælt fram, segja sumir að spyrjandinn sé feigur, en aðrir segja að þá skuli fleygja í hana einhverju, helzt íleppum úr skó sínum, og skuli sá sem fleygir flytja sig í þá áttina, sem hún flýgur þá í, það vor eða hið næsta og muni þeim sem svo gjörir vel farnast.

Til þess að vinna í kotru skal taka máríötlutungu og þurrka við sólu, mylja síðan saman við messuvín og láta í teningsaugun, og er þá vís vinningur. Sagt er að máríatlan geti ekki orpið fyrri á vorin en hún hefur fengið sér hár af hreinni mey til að verpa eggjum sínum á og er það hverri mey fyrir beztu að verða vel við nauðþurft hennar. En ólánsmaður verður sá sem ómakar eggin hennar. Ef hreiðri hennar er lokað fyrir henni hefur hún ráð til að opna það.[2]

  1. Frá [ hafa aðrir þannig:
    „En segðu mér nú, María litla mín,
    hvar á ég að vera vetur, sumar, vor og haust?“
  2. Sjá Lásagras.