Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kirkjur

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, ritstjórn Jón Árnason
Kirkjur

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Kirkjurnar eru góðar frásagnar eins og við er að búast. Það er hvort tveggja að Íslendingar hafa löngum þótt kirkjuræknir og trúræknir og það ekki einungis mennskir menn, heldur einnig bæði álfarnir eins og víða er á vikið að framan og eins jafnvel dvergarnir sem þegar skal sýnt; enda hafa Íslendingar látið það ásannast með ýmsu móti að þeir hafa virt kirkjur sínar bæði með áheitum og öðru, því þegar menn voru í einhverjum vanda staddir eða nauðum hétu menn tíðum á kirkjur. Þetta var einkum siður á fyrri öldum þegar menn voru annaðhvort í lífsháska eða í einhverjum þeim kröggum sem þeir treystust ekki til að komast úr af eigin ramleik, og var það þá ævinlega segin saga að þegar menn höfðu fest heitið þá fengu menn bót á böli sínu. Þetta var að vísu á fyrri öldum helzt og á þenna hátt er sagt að ekki allfáar kirknaeignir séu undir komnar, en þó er þessi siður ekki enn alveg lagður fyrir óðal því árin 1855-60 hafa Strandarkirkju í Selvogi gefizt 117 rdl. í heitfé enda hefur sú kirkja verið talin einhver hin fengsælasta með slíkt fé bæði að fornu og nýju og þótt góð til áheita.