Þúsund og ein nótt/Fimmta ferð Sindbaðs farmanns

„Ég hafði enn þá svo mikið yndi af unaðsemdum lífsins, að ég gleymdi öllum þrautum og hörmungum, sem ég hafði þolað, en gat samt ekki orðið afhuga nýjum ferðum. Keypti ég því vörur, lét búa um þær, hlaða þeim á vagna og flytja til næstu hafnar. Nú vildi ég eigi vera háður neinum skipráðanda, og lét því gera skip á sjálfs mín kostnað og búa það.

Þegar það var fullgert, voru vörur mínar fluttar út á það, og sté ég á skipsfjöl. En með því að ég gat ekki sjálfur dregið saman fullkominn skipsfarm, tók ég með mér marga kaupmenn frá ýmsum þjóðum og vörur þeirra.

Sigldum vér góðan byr frá landi, en höfðum langa útivist og stigum fyrst á land í eyðiey nokkurri. Þar fundum vér Roks egg, jafnstórt því, er ég áður hef frá sagt. Í því var lítill ungi, sem því nær var útklakinn og sá þegar á nefið....


103. nótt breyta

Kaupmennirnir, farþegar mínir, sem höfðu farið upp á land með mér, mölvuðu sundur eggið með öxum sínum, slitu ungann úr því lið fyrir lið og steiktu hann. Ég hafði lagt ríkt á við þá, að snerta ekki á egginu, en þeir gáfu orðum mínum engan gaum.

Undir eins og þeir höfðu lokið máltíð sinni, sáum vér langt í burtu eins og tvö ský. Skipstjórnarmaður sá, er ég hafði fengið til að vera fyrir skipinu, vissi af eigin reynslu, hvers kyns var. Kallaði hann því til vor og sagði, að þetta væru foreldrar ungans, og skyldum vér fyrir hvern mun flýja út á skip að vörmu spori, og forða oss undan voða þeim, er yfir vofði. Vér hlýddum ráði hans og sigldum af stað.

Nú komu báðir fuglarnir og ráku upp hræðileg óhljóð þegar þeir sáu að eggið var brotið og unginn horfinn. Flugu þeir aftur í hefndarhug til þess staðar, sem þeir voru komnir frá, og hurfu um stundar sakir, en vér undum upp segl til þess að flýja það, sem fyrir oss lá; því nú komu fuglarnir aftur og hafði hvor um sig heljarstóran klett í klóm sér, og hnitmiðuðu þeir sig á fluginu yfir skipi mínu.

Lét nú annar fuglinn klettinn detta úr klóm sér. En stýrimaður brá svo fimlega við, að hann gat vikið skipinu undan í einum svip, og kom kletturinn niður örskammt frá oss, og klofnaði sjórinn svo voðalega, að vér því nær sáum í botn.

Til allrar óhamingju sleppti nú hinn fuglinn sínum kletti niður úr klóm sér og ofan á mitt skipið; skelltist það sundur í þúsund parta. Sjómenn og ferðamenn rotuðust annaðhvort undir bjarginu, eða sukku í kaf; ég sökk líka, en er mér skaut upp úr kafi, tókst mér að ná í skipsflak eitt. Reri ég mig áfram með höndunum til skiptis, því meðan ég reri með annarri, hélt ég mér dauðahaldi með hinni; komst ég með þessu móti loksins til eyjar nokkurrar, og var hún fjarskalega sæbrött, en samt fékk ég klifrazt upp á hana og þannig bjargað lífi mínu.

Ég settist niður í grasið, til þess að hvílast eftir hrakning þenna, og var ég næsta dasaður; síðan gekk ég upp frá sjónum til að kanna uppland eyjarinnar. Þótti mér þá sem ég væri kominn í fegursta aldingarð; hvarvetna stóðu trén hlaðin grænum aldinvísum eða alþroskuðum ávöxtum, en tærustu lækir runnu þar niðandi í fögrum bugðum. Ég snæddi nokkra ávexti og voru þeir hinir ljúffengustu; síðan svalaði ég mér á vatninu, sem var hið lystilegasta til drykkjar.

Þegar nótt var komin, lagðist ég niður á jörðina, þar sem mér leizt hentugast, en ekki varð mér svefnsamt, því mér þótti voðalegt að vera einn á svo eyðilegum stað. Var ég mestalla nóttina að álasa sjálfum mér fyrir heimsku mína, að ég skyldi ekki heldur hafa setið heima, en ráðizt í þessa síðustu ferð. Út af þessum hugleiðingum kom mér til hugar að fyrirfara sjálfum mér, en er dagur ljómaði, var sem örvænting mín rénaði. Stóð ég þá upp og gekk inn á milli trjánna með hálfum huga.

En er ég kom lengra á land upp, sá ég gamlan karl, sem mér virtist vera næsta ellihrumur, og sat hann á lækjarbakka. Kom mér þá ekki annað til hugar en hann mundi vera skipbrotsmaður eins og ég; gekk ég því til hans og heilsaði honum, en hann bandaði að eins höfðinu og svaraði engu.

Spurði ég hvað hann væri að gera þar, en í stað þess að svara mér, gerði hann mér skiljanlegt með bendingum, að ég skyldi taka hann á herðar mér og bera hann yfir lækinn, svo hann gæti lesið sér þar aldin. Ég trúði því þá, að hann í raun og veru væri kominn upp á hjálp mína, tók hann upp á bak mér, og bar hann yfir lækinn.

„Farðu nú ofan af mér,“ sagði ég við hann og laut ofan að jörð, svo að honum yrði hægara fyrir. Á það, sem nú gerðist, get ég aldrei óhlæjandi minnzt. Karlinn, sem mér hafði sýnzt vera svo örvasa og hrörlegur, krækti báðum fótum um háls mér með mesta liðugleik, og settist á herðar mér eins og á hest; var skinnið á fótum hans eins og nautshúð. Kreppti hann svo fast að kverkum mínum, að ég hélt hann ætlaði að kyrkja mig; fékk ég þá öngvit af hræðslu og féll til jarðar....


104. nótt breyta

Þrátt fyrir öngvitið sat hinn hvimleiði karl grafkyrr á hálsi mér, en linaði þó takið ofurlítið, til þess ég skyldi rakna við. En er ég var kominn til sjálfs mín, brá hann öðrum fætinum fyrir kvið mér, en sparkaði hinum í síðu mér, svo ég varð að standa upp. Síðan lét hann mig bera sig inn á milli trjánna og neyddi mig öðru hverju til að staldra við, svo að hann gæti lesið ávexti og étið þá.

Hann sleppti mér ekki allan daginn, en er nótt var komin, og ég ætlaði að hvíla mig, lagðist hann niður á jörðina með fæturna krækta um háls mér.

Á hverjum morgni sparkaði hann í mig, og vakti mig þannig; því næst kreppti hann fæturna svo fast að mér, að ég varð að standa upp. Megið þér nærri geta, hvort ég ekki hef átt bágt, að verða að dragast með þessa byrði, sem mér var lífsómögulegt að losast við.

Einn dag fann ég á leið minni margar þurrar hnetur, sem fallnar voru ofan úr tré einu, er bar þann ávöxt. Tók ég eina, sem var furðu stór, holaði hana innan, og kreisti í hana safa úr mörgum vínberjum, því af þeim óx ógrynni þar í eynni, hvar sem fæti var stigið.

Þegar hnotin var full, lagði ég hana á vísan stað, og stillti svo til, að karlinn skyldi fara með mig þangað nokkrum dögum síðar. Tók ég þá hnotina og drakk hinn ágæta drykk; svæfði hann um stund þá dauðans hryggð, sem ég kvaldist af. Mér þótti afl færast um limu mína, og varð svo kátur, að ég hoppaði í loft upp syngjandi.

Þegar karlinn sá, að drykkurinn hafði þessi áhrif og fann að mér varð venju fremur létt fyrir að bera hann, benti hann mér, að ég skyldi lofa honum að súpa á. Rétti ég honum þá hnotina, og með því honum þótti drykkurinn góður, slokaði hann allt í sig og kúgaði hnotina til hins síðasta dropa.

Þurfti hann ekki meira til að verða svinkaður og sveif skjótt á hann; tók hann þá að syngja, sem honum lá rómur til, og reri í ýmsar áttir á herðum mér. En af róli þessu varð honum svo óglatt, að hann ældi upp því, er hann hafði drukkið; fann ég þá að fætur hans linuðust og losnuðu smámsaman um háls mér, og þegar ég fann, að hann hætti að kreppa að mér, fleygði ég honum til jarðar, og lá hann þar hreyfingarlaus; þreif ég þá upp stóreflis stein og mölvaði með honum hvert bein í hausi hans.

Ég var nú guðsfeginn að vera orðinn laus við þenna karlskratta og gekk fagnandi til strandar; hitti ég þar nokkra sjómenn, sem nýlega voru lentir til að sækja vatn og matföng.

Urðu þeir hlessa, þegar þeir sáu mig og heyrðu sögu mína. „Þú hefur rekizt í greipar sjávar-öldungsins“ sögðu þeir, „og ert þú sá fyrsti, sem hann hefur ekki kyrkt. Hann sleppti aldrei þeim, sem hann einu sinni hafði fest hendur á, fyrr en hann hafði kyrkt þá, og er ey þessi illræmd af mannskaða þeim, er hann hefur gert. Sjómenn þeir og kaupmenn, er lentu hér við eyna, þorðu aldrei upp á land, nema þeir væru margir saman.“

Að svo mæltu tóku þeir mig með sér út á skip og fagnaði skipstjórnarmaður mér vel, er ég hafði sagt honum sögu mína. Sigldum vér þaðan burt og lögðumst nokkrum dögum síðar við akkeri á stórri höfn.

Einn af kaupmönnum á skipi þessu varð góður vinur minn, og fékk mig til að fara með sér; fór hann með mig til húss eins, þar sem margir útlendir kaupmenn voru á vist saman. Hann fékk mér stóran sekk, fól mig á hendur nokkrum mönnum í borginni, sem gengu með samkyns sekki; beiddi hann þá að taka mig með sér, þegar þeir færu að tína kókoshnetur og sagði hann þá við mig:

„Far þú eins að og hinir og skildu ekki við þá, því ella er þér lífsháski búinn.“

Hann gaf mér og eins dags nesti og fór ég síðan með hinum öðrum í stóran skóg; voru trén þar geysihá og beinvaxin. Stofnar þeirra voru svo háir, að ómögulegt var að klifrast upp í þau til þess að seilast eftir greinunum og ávöxtunum. Öll trén voru kókospálmar, og áttum vér að fylla sekki vora með hnetum þeim, er á þeim uxu.

Þegar vér komum inn í skóginn, sáum vér fjölda apa, smárra og stórra; lögðu þeir á flótta undir eins og þeir sáu oss og klifruðust með frábærum fimleika upp í trjátoppana.


105. nótt breyta

Förunautar mínir tóku steina og köstuðu þeim eftir öpunum, sem uppi í trjánum sátu. Eins gerði ég; en jafnskjótt sem aparnir urðu þess varir, rifu þeir kókoshneturnar upp í gríð og köstuðu þeim í oss; skældu þeir og brettu sig í framan, því þeir voru fokreiðir. Hirtum vér ávextina og ertum apana öðru hverju með steinkasti. Með þessu bragði fylltum vér sekki vora með kókoshnetum, og mundum vér ella hafa farið tómhentir.

Þegar vér höfðum aflað svo mikils, sem vér vildum, fórum vér aftur til borgarinnar og borgaði mér fyrir hneturnar kaupmaður sá, er hafði sent mig.

„Þannig skaltu halda áfram,“ mælti hann, „þangað til þú hefur grætt svo mikið, að þú getur komizt heim.“

Þakkaði ég honum heilræðið og aflaði ég smámsaman svo mikils af hnetum, að töluverð eign var í.

Um þessar mundir lagði út skip það, sem hafði flutt mig þangað, hlaðið kókoshnetum. Beið ég þess að annað skip kæmi, og leið ekki á löngu, að eitt lagðist þar á höfninni, og átti að hlaða það samkyns farmi. Lét ég flytja kókoshnetur mínar á þetta skip, og er það var seglbúið, kvaddi ég kaupmanninn, sem ég átti svo mikið gott að þakka. Gat hann ekki orðið mér samferða, því hann átti margt ógert.

Héldum vér nú af stað og stýrðum til eyjar einnar, sem gefur af sér ógrynni pipars. Þaðan fórum vér til Kómari-skaga, þar sem alóe-viður fæst beztur; þar hafa landsbúar gert að óbrigðanlegum lögum með sér, hvorki að bergja á víni, né njóta nokkurs munaðar.

Lét ég þar kókoshnetur mínar í skiptum fyrir pipar og alóe-við, og réðist þaðan með öðrum kaupmönnum til perlufangs, og tók kafhlaupara á leigu; söfnuðu þeir handa mér ógrynni af stórum og fögrum perlum.

Sigldi ég þaðan, glaður í huga og komst farsællega til Balsora, og þaðan til Bagdad; seldi ég þar dýrum dómum pipar og alóe-við. Tíunda parti gróða míns varði ég til að hjálpa fátæklingum, eins og ég hafði gert, þegar ég kom heim úr fyrri ferðum mínum, og leitaðist ég því næst við að bæta mér upp með skemmtunum þær miklu þrautir, sem ég hafði orðið að þola“....

Þá lét Sindbað aftur telja Hindbað hundrað gullpeninga, og fór hann burt með hinum öðrum gestum. Næsta dag komu hinir sömu gestir til borðs hjá hinum auðuga farmanni; veitti hann þeim vel eins og að undanförnu, og sagði þeim síðan frá hinni sjöttu ferð sinni.