Þúsund og ein nótt/Sagan af hinum öðrum förumunki og kóngssyni

„Lafði mín!“ tók hann til máls, „ég skal hlýða boði yðar og segja yður upp alla ævisögu mína, svo að þér fáið að vita, hver fádæmi voru þess valdandi, að ég missti hægra auga mitt. Vitið því, að ég er konungssonur. Þegar ég var kominn af bernsku skeiði, sparði konungurinn, faðir minn, ekkert til að ég fengi fræðzt og menntazt, því hann sá, að ég var vel gáfaður.

Safnaði hann að sér öllum fjölvitringum og listamönnum í landi sínu og jafnskjótt sem ég hafði lært að lesa og skrifa, lærði ég kóraninn utanbókar, þá hina aðdáanlegu bók, sem hefur aðalreglur og boðorð trúar vorrar inni að halda. En til þess að nema fræði þessa út t æsar, las ég rit hinna frægustu þýðara kóransins og kynnti mér þar að auki allar þær kenningar, er safnað hefur verið af hinum miklu mönnum, er lifðu á tímum spámannsins, eftir hans eigin munni.

Lét ég mér samt ekki nægja að vita allt, sem laut að trú vorri, heldur lagði ég og stund á sögu vora með miklum áhuga, varð fullnuma í fögrum vísindum og kveðskaparlist og las kvæði skálda vorra. Ég lærði jarðarfræði og stjörnufræði, leitaðist við að tala móðurmál mitt hreint, og varð mér í öllu þessu mikilla framfara auðið; sló ég þó ekki slöku við öðrum íþróttum, er konunga sonum sæma.

Mesta löngun hafði ég til þess, að læra að skrifa fagra rithönd; varð mér svo ágengt í því, að ég loksins bar af öllum hinum frægustu skrifurum í ríki föður míns.

Nú fór mikið orð af mér og meira en ég átti skilið, og flaug orðrómur íþrótta minna og atgjörvis út fyrir ríki föður míns allt til hirðar Indía soldáns. Fýsti því þenna volduga konung að komast í kunningsskap við mig, og gerði út sendimenn með dýrum gjöfum, er biðja skyldu föður minn, að ég mætti koma til hirðar hans.

Þótti föður mínum vænt um þessi boð af mörgum ástæðum. Bæði var það sannfæring hans, að ekkert væri gagnlegra fyrir kóngsson á mínum aldri en að ferðast til útlendra konunga, og annað var það, að hann hugði sér til hreyfings, að komast í vináttu við Indía soldán.

Fór ég nú af stað með sendiboðunum og hafði faðir minn látið búa handa oss skip; því vér urðum að fara nokkuð af leiðinni sjóveg. Eftir eins mánaðar útivist stigum vér á land og tókum með oss nokkra hesta og klyfjuðum tíu úlfalda með farangri vorum og gjöfum þeim, er ætlaðar voru Indía soldáni. Síðan lögðum vér af stað með litlu föruneyti, því vér áttum óraveg fyrir höndum og næsta erfiðan.

Þegar vér vorum komnir spölkorn áleiðis, sáum vér langt burtu, að þyrlaðist upp þykkur rykmökkur; voru þar komnir sextíu riddarar vel vopnaðir. Þetta voru ræningjar og þeystu þeir að oss hart sem elding flygi, óðlátir eins og soltin ljón.“

Sjerasade minnti soldán á, að dagur væri kominn og þagnaði.


59. nótt breyta

Þenna morgun vaknaði drottning nokkru seinna en vant var; byrjaði hún þá á sögunni, þar sem hún hafði hætt við; var Sjarjar mikill hugur á að heyra framhaldið.

„Herra!“ mælti hún, „annar förumunkurinn sagði þannig áfram sögu sína: „Vér vorum liðfærri en svo, að vér gætum veitt viðnám, er þeir riðu að oss með reiddar kesjur. Kölluðum vér til þeirra og sögðumst vera sendiboðar á leið til hins volduga Indía soldáns, og væntum vér því, að þeir mundu sjá oss og eigur vorar í friði.

En þeir svöruðu: „Hvorki erum vér nú innan hans landamæra, né heldur erum vér þegnar hans;“ síðan réðust þeir á oss og drápu nokkra af föruneyti voru, og er ekkert dugði fyrir ofureflis sakir, flýðu þeir, sem uppi stóðu, eftir hrausta vörn.

Ég hleypti þá undan sem aftók, þótt hestur minn væri mjög særður og kvaldi ég úr honum síðasta sprettinn mér til frelsis. Loksins steyptist hann dauður niður undir mér, mæddur af blóðrás og þreytu. Stóð ég þá skjótt upp, litaðist um og voru engir á eftir mér. Ræningjarnir höfðu ekki viljað skilja við herfangið til að elta mig....


60. nótt breyta

Nú stóð ég einmana og hjálparlaus í ókunnu landi. Þorði ég eigi að koma nærri þjóðvegum, því ég var hræddur um, að ég kynni aftur að verða á vegi stigamanna. Hélt ég því áfram af handa hófi þangað til ég kom að fjalli einu; var undir því hellisskúti. Fór ég þar inn og snæddi nokkur aldin, sem ég hafði lesið á veginum; var ég um nóttina þar í hellinum og sýtti hvergi. Morguninn eftir hélt ég áfram þaðan og fann ég engan viðværilegan stað.

Loksins að mánuði liðnum sá ég stóra og fjölmenna borg, sem byggð var á fögrum og hentugum stað. Eftir héraðinu allt umhverfis runnu mörg vatnsföll; var þar unaðssamt yfir að líta og eilíft vor, og rættist því af mér um stund sú dauðans hryggð, sem kom yfir mig, þegar ég hugsaði til míns auma ástands. Ég var sólbrenndur á andliti, höndum og fótum, skór mínir voru gatslitnir af vegalengdinni og varð ég að ganga berfættur, en föt mín voru öll saman rifin og tætt.

Gekk ég nú inn í borgina til að spyrja, hvar ég væri niður kominn, og fór ég til skraddara eins, er sat við vinnu í sölubúð sinni. Sá hann á hinu unglega yfirbragði mínu og limaburði, að ég mundi vera annar en ég sýndist vera; bauð hann mér því að setjast niður og spurði, hver ég væri, hvaðan ég kæmi, og hverra erinda ég færi. Sagði ég honum allt, hvað mér hafði viljað til og gerði honum uppskátt faðerni mitt.

Hlýddi hann á mig með athygli, en er ég hafði lokið sögu minni, þótti mér hann heldur hryggja mig en hugga. „Trúðu engum öðrum fyrir því, sem þú hefur sagt mér,“ mælti hann, „því að konungur sá, sem hér ræður ríkjum, er svarinn óvinur föður þíns, og mundi hann vafalaust misþyrma þér, ef hann vissi, að þú værir hér.“

Undir eins og hann hafði nefnt nafn konungs þessa, kom mér ekki til hugar að tortryggja hann.

Með því nú fjandskapur sá, er faðir minn og konungur þessi áttu í, á alls ekki skylt við ævintýri mitt, vona ég þér leyfið mér að fella hann úr sögunni. Ég þakkaði skraddaranum fyrir vísbendingu þá, er hann hafði gefið mér, og sagði ég honum, að ég skyldi hlýða heilræðinu og aldrei gleyma greiðvikni hans. Af því hann hélt að ég væri svangur, lét hann bera mat á borð og snæddum við saman. Loksins bauð hann mér gistingu hjá sér og þáði ég það.

Þegar ég hafði hvílt mig nokkra daga, náði ég mér að mestu leyti eftir hina löngu og erfiðu ferð. Vissi skraddarinn það, að flestir konunga synir, sem hafa vora trú, nema einhverja iðn eða íþrótt sökum hverfulleika forlaganna, að það megi verða þeim til bjargar, þegar neyðin ber að hendi; spurði hann mig því, hvort ég kynni nokkurt það verk, að ég gæti haft ofan af fyrir mér. Svaraði ég honum, að ég væri lögfróður maður, málvitringur og skáld gott og ritaði fagra hönd.

Þá sagði hann: „Með öllu þessu, sem þú hefur upp talið. getur þú ekki unnið þér fyrir einum matarbita hér á landi; slíkur fróðleikur er hér til engra nota. Farðu nú að mínum ráðum; þú ert heilbrigður að sjá og hraustlega vaxinn, farðu í stuttklæði og sæktu eldivið í skóginn hérna. Skaltu selja hann á torginu og á þann hátt getur þér svo mikið áskotnazt, að þú verðir ekki upp á aðra kominn; getur þú þá haft þolinmæði þangað til guð verður þér líknsamur og eyðir ólánsskýi því, er skyggir yfir hamingju þína, svo að þú verður að leyna ætt þinni.“

Bæði var ég nú hræddur um, að upp kæmist, hver ég væri, og annars vegar var mér nauðugur einn kostur, að afla mér viðurværis, svo ég réði það af, að taka þenna atvinnuveg fyrir mig, svo erfiður og auðvirðilegur sem hann var. Daginn eftir keypti skraddarinn handa mér öxi, byrðarband og stuttkyrtil, og beiddi nokkra fátæklinga, er lifðu á sömu vinnu, að lofa mér að fylgjast með þeim út í skóg. Í fyrsta skipti kom ég með stóra viðarbyrði á bakinu heim í borgina og fékk ég hálfan gullpening fyrir, því þótt skógur væri nærri, var viður í háu verði, því fáir vildu leggja á sig það neyðar strit, að höggva tré. Leið nú ekki á löngu, að ég gat goldið skraddaranum það, sem hann hafði greitt fyrir mína hönd.

Svona leið nú eitt ár; en þá var það einn dag, að mér varð gengið lengra inn á mörkina en ég var vanur; var þar næsta fagurt í skóginum og fór ég að fella tré. Ætlaði ég að höggva ræturnar undan einu tré, en öxin nam staðar við járnhring; mokaði ég þá moldinni frá og sá að hringurinn var fastur í járnhurð, og lauk ég henni óðar upp. Sá ég þá steintröppur, sem lágu djúpt niður í jörðina og fór ég þar ofan með öxi mína.

Kom ég niður í víða höll og undraðist mikillega, er þar var svo bjart, sem hátt á jörð uppi. Ég gekk um sal einn; voru þar pallar, er hvíldu á jaspissúlum, en súlurnar voru af gulli gjörvar að ofan og neðan. Sá ég þá koma móti mér konu, sem var svo vegleg í limaburði og framgöngu, svo kurteisleg og frábærlega fríð, að ég missti sjónar á öllu öðru og einblíndi á hana“....


61. nótt breyta

„Ég tók ómakið af konunni,“ sagði förumunkurinn við Sobeide, „að koma til mín; ég flýtti mér til hennar og hneigði mig djúpt fyrir henni, og spurði hún mig: „Hver ert þú? Maður eða andi?“

„Ég er maður,“ anzaði ég, „og hef ekkert samneyti við anda.“

„Hvernig ertu þá kominn hingað?“ mælti hún og andvarpaði mæðilega, „ég hef verið hér í tuttugu og fimm ár og hef allan þann tíma engan mann séð nema þig.“

Var ég þegar orðinn hugfanginn af hinni frábæru fegurð hennar, en nú óx mér hugur af kurteisi hennar, ljúfmennsku, viðmótsblíðu og sætleika máls hennar, svo að ég mælti: „Lafði mín! Leyf mér, áður en ég leysi úr spurningum þínum að láta í ljósi, hvað ég er feginn, að hafa fundið þig, svona mér að óvörum, því bæði er mér það til huggunar í eymdum mínum og getur ef til vill af því atvikazt, að hagur þinn mætti nokkuð batna.“

Sagði ég henni því næst allt eins og var, hversu kynlega á því stæði, að ég, sem var kóngsson, kæmi í svo herfilegum flíkum, og hvernig ég eins og af tilviljun hefði rekizt að dyrunum á hinu glæsilega fangelsi, sem henni mundi að líkindum þykja hvimleitt.

„Kóngsson minn!“ mælti hún og andvarpaði á ný, „þér skjátlast sízt, þar sem þú heldur, að þetta skrautlega og ríkmannlega fangelsi sé hvimleiður samastaður. Vér höfum óbeit á hinum inndælustu stöðum, þegar vér dveljum á þeim með nauðung. Þú hefur vafalaust heyrt getið um hinn mikla Epitímarus, konung Svartviðar-eyjanna, er draga nafn af þessum dýrmæta við, sem þar er nægð af.

Konungur þessi er faðir minn og hafði ætlað að gifta mig kóngssyni einum, sem er frændi minn, en á hinni fyrstu brúðkaupsnótt, áður en ég var seld í hendur manni mínum, kom andi nokkur meðan hæst stóð á veizlunni og strauk burt með mig. Féll ég samstundis í ómegin og varð með öllu meðvitundarlaus, en er ég vitkaðist, var ég komin í þessa höll.

Var ég lengi vel framan af óhuggandi, en tímalengdin og nauðsynin hafa vanið mig við útlit og sambúð þessa anda. Það eru tuttugu og fimm ár síðan, - eins og ég sagði - að ég kom hingað; get ég fengið hér allt, sem ég óska og mér er þörf á; mundi hinni skartsömustu kóngsdóttur þykja sér einskis vant, ef hún hefði mín kjör. Andinn er hér aldrei nætur sakir nema einu sinni á tíu daga fresti og biður virða sér til vorkunnar, að hann komi ekki oftar, því hann eigi aðra konu, er verða mundi afbrýðisöm, ef hún kæmist að ótrúleika hans. En þurfi ég andans við, hvort heldur á nótt eða degi, þarf ég ekki annað en að snerta verndargrip einn, sem liggur við dyrnar í herbergi mínu og kemur þá andinn undir eins.

Nú eru fjórir dagar síðan hann var hér; vænti ég hans því að sex daga fresti. Þú getur því verið hjá mér í fimm daga, ef þér leikur hugur á, og skal ég reyna að gera til þín, sem tign þinni og verðleikum sæmir.“

Mundi mér hafa þótt það frábært lán, að hljóta slíka náð fyrir sára bæn, svo nærri má geta, að ég drap ekki hendi við því, þegar mér bauðst það óbeðið. Leiddi kóngsdóttir mig síðan að bogadyrum, og kom ég inn um þær í hið skrautlegasta baðhús, sem hugsazt gat.

En er ég ætlaði þaðan burt, fann ég í stað ræfla þeirra, er ég hafði farið úr, hin prýðilegustu klæði og fór ég í þau, bæði vegna þess, hvað þau voru falleg, en þó einkum til þess, að kóngsdóttur skyldi lítast betur á mig. Því næst settumst við á legubekk með dýrðlegri ábreiðu yfir og indverskum svæflum.

Nokkru síðar bar hún dýrustu krásir á borð og mælti fram vísur þessar:

Mundi ég breitt hafa
blíðast hjarta,
hefða ég vænt þín, vinur!
og sjáaldur svartra
sjóna minna,
fyrir fætur þína.
Og á mold mjúkar
mínar kinnar
hefði ég lagðar látið,
að þú fótum
farið hefðir
augnalok mín yfir.

Síðan sátum við saman til borðs; var okkur vel skemmt það sem eftir var dagsins, og um nóttina samrekkti ég henni.

Nú rann á mig hinn sætasti óminnishöfgi og vaknaði ég við það, að hún kitlaði mig mjúklega undir iljunum. (Þannig eru ambáttir í Austulöndum vanar að vekja herra sína.) Leitaðist hún á allar lundir við að vera mér sem ljúfust og huglátlegust og setti hún fram handa mér eina flösku af ágætu gömlu víni og drakk mér til með blíðu.

En hinn ágæti drykkur sté mér til höfuðsins og sagði ég hýrgaður af víninu: „Fagra mær, þú hefur helzt til lengi verið hér kviksett; far nú með mér og gleð þig við hina sönnu dagsbirtu, er þú hefur svo langan tíma þráð. Seg þú skilið við villuljós það, er lýsir á þessum stað.“

Svaraði hún mér þá brosandi: „Kóngsson minn! Látum það svo vera; ég skal ekki þreyja hinn dýrðlegasta dag á jörð uppi, ef þú ert hjá mér í níu daga af hinum tíu, og eftirlætur andanum hinn tíunda.“

„Kóngsdóttir!“ tók ég aftur til orða, „ég skil, að þú segir þetta af hræðslu fyrir andanum, en ég hræðist hann ekki meira en svo, að ég á augabragði skal mölva í sundur verndargripinn hans með töfraletrinu. Hann er velkominn ef hann vill, ég bíð hans, og skal drepa hann, því ég er fæddur í heiminn til að drepa anda. Ég sver þér það: alla anda í veröldinni skal ég drepa og þenna fyrst.“

Kóngsdóttirin, sem vissi, hvað eftir kunni að fara, beiddi mig í guðs bænum, að snerta ekki á verndargripnum, „það væri hinn vísasti vegur til að steypa báðum okkur í glötun; ég veit betur til hvers andarnir eru vísir.“

En vínið hafði svifið svo á mig, að ég gaf hinum skynsamlegu fortölum kóngsdóttur engan gaum og mölvaði verndargripinn sundur með fætinum.


62. nótt breyta

Í sama vetfangi, sem verndargripurinn brotnaði, skalf höllin og titraði, og kallaði kóngsdóttir til mín dauðhrædd: „Þarna kemur andinn, sagði ég þér ekki þetta? Þú hefur steypt mér í glötun, en forða þú þér og hirð ekki um mig; flýðu sama veg og þú komst.“

Rann nú af mér á augabragði og sá ég um seinan heimsku mína. Ég hlýddi umhugsunarlaust ráði því, er kóngsdóttirin gaf mér, og svo var ég hræddur, að ég gleymdi öxi minni og skóm. Þegar ég hafði gengið upp örfáar tröppur í steinriðinu, litaðist ég um og sá þá, hvar gólfið laukst upp og kom þar upp andi, ógurlegur ásýndum.

Sagði hann í reiði við kóngsdóttur: „Því ónáðar þú mig með slíku harki? Hvert slys hefur viljað þér til?“

„Æ, ekkert slys,“ anzaði hún, „nema mér varð flökurt og drakk ég nokkra sopa af flöskunni þeirri arna, og þá varð mér fótaskortur og datt ég ofan á verndargripinn, svo hann brotnaði.“

Þá brást andinn óður við og svaraði: „Þú lýgur, óhræsið þitt!“ og skimaði nú í krók og kring þangað til hann kom auga á skóna og öxina.

„Hundsflugan þín!“ hrópaði hann, „hvaðan eru þessir skór og öxin komin hingað?“

„Ég hef ekki séð það fyrr en núna,“ segir kóngsdóttir, „það er vísast, þú hafir komið með það í ógáti. Þú komst með svo miklum asa, að það hefði vel getað slæðzt með þér.“

Andinn anzaði þessum útúrdúrum ekki með öðru en fáryrðum og slögum og skipaði kóngsdóttur að gangast við sannleikanum. Hafði ég ekki skap til að heyra grátekka og harmakvein hennar, er hann misþyrmdi henni; fleygði ég því búnaði þeim, er hún hafði fengið mér, og tók tötra mína, sem ég hafði lagt niður á tröppurnar, þegar ég gekk frá baðinu; flýði ég nú upp riðið og lauk eftir mér fellihurðinni og jós mold yfir; iðraðist ég þá beisklega eftir það, sem ég hafði gert.

Hugsaði ég með mér: „Raunar hefur hún verið í prísund í tuttugu og fimm ár, en að fráskildu frelsinu var henni einskis á vant; ég hef fyrirgert láni hennar með gapaskap mínum og ofurselt hana í grimmdarklær þessa miskunnarlausa anda.“

Þegar ég nú hugsaði til þess, hvað kóngsdóttir var fríð og hvað hún varð að þola mín vegna, þegar ég hugsaði til föður míns og ríkis míns, og íhugaði, að ég var orðinn auðvirðilegur viðhöggvari, þá datt mér vísa þessi í hug:

Einn ef dagur yndi fól
ýmis konar skugga,
annar fagur sýnir sól
sú skal vonin hugga.

Batt ég nú viðarbyrði mína svo sorgbitinn, að ég vissi naumast, hvað ég gerði, og sneri heim til borgarinnar. Varð skraddarinn næsta glaður, er hann sá mig aftur kominn. Hann hafði beðið mín með mestu óþolinmæði og verið sem á glóðum.

„Ég varð fjarska áhyggjufullur“, mælti hann, „þegar þú hvarfst, af því þú hafðir sagt mér ætterni þitt. Vissi ég ekki, hvað ég ætti að halda, og var hræddur um að einhver hefði þekkt þig. Guði sé lof að þú ert heill heim kominn!“

Þakkaði ég honum fyrir hans ástríka hugarþel mér til handa, en sagði honum alls ekki frá ævintýri mínu, eða hvernig ég hefði misst öxi mína og skó. Gekk ég síðan til herbergis míns og nagaði mig sáran í handarbökin fyrir heimsku mína.

„Mér gafst kostur á að lifa í fullsælu með kóngsdótturinni,“ hugsaði ég með sjálfum mér, „hefði ég aðeins getað stillt mig um að brjóta sundur verndargripinn.“

Meðan ég sat þarna þungt hugsandi og harmandi, kom skraddarinn inn til mín og mælti: „Það er kominn til mín ókunnugur karl með öxina þína og skóna; segist hann hafa fundið hvorttveggja á leið sinni. Hinir viðhöggvararnir hafa sagt honum, að þú ættir hér heima, og vill hann nú sjálfur afhenda þér það. Komdu og talaðu við hann.“

Þegar ég heyrði þetta, bliknaði ég upp og skalf allur og titraði. Skraddarinn spurði mig, hvernig á því stæði, en í því klofnaði gólfið í herbergi mínu og kom upp karlinn með skóna og öxina. Þetta var þá andinn, sem hafði burtnumið kóngsdótturina frá Svartviðareyjum. Svo sem hann hafði misþyrmt henni fram úr öllu hófi, gat hann samt ekki kvalið hana til að gangast við neinu.

Tók hann því öxina og skóna og mælti: „Svo sannarlega sem ég er Dsjarsjaris og kominn af Íblis, höfðingja andanna, skal ég hafa upp eigandann að öxi þessari og skóm.“

Þetta var erindi hans og spurði hann því, hvort þetta væri öxi mín og skór.“


63. nótt breyta

„Andinn gaf mér ekki málrúm til að svara spurningu hans,“ sagði annar förumunkurinn Sobeide, „enda hefði ég ekki haft rænu á að svara honum, svo mikil ógn stóð mér af þessari skelfilegu óvætt. Hann þreif yfrum mig, dró mig út úr herberginu og sendist með mig upp í háa loft með slíkri ofsaferð og flýti, að ég fékk heldur skynjað, hversu hátt hann flaug, en hvað langt hann fór í einum svip. Allt í einu renndi hann sér niður á jörðina, og er hann stappaði fætinum, laukst hún upp og samstundis vorum við horfnir í töfrahöllina til hinnar fögru kóngsdóttur frá Svartviðareyjum.

En hvílíka sjón átti ég þar í vændum! Það var eins og sverði væri lagt gegnum hjarta mitt; kóngsdóttir lá nakin á gólfinu í blóði sínu, nær dauða en lífi, og kinnar hennar flóðu í tárum.

„Svikafulli kvendjöfull!“ grenjaði andinn um leið og hann benti á mig, „er ekki þetta friðill þinn?“

Kóngsdóttir horfði til mín blíðlega og anzaði: „Ég þekki ekki þenna mann, ég hef aldrei séð hann fyrr en nú.“

Furðaði andinn sig á þessu og mælti: „Hann veldur því, að þú ert komin í þetta ástand, sem maklegt er, en samt vogar þú að þræta fyrir, að þú þekkir hann?“

„Úr því ég þekki hann ekki,“ anzaði kóngsdóttir, „því skyldi ég þá segja ósannindi, og ráða honum þannig bana?“

„Gott og vel,“ svaraði andinn og hélt brugðnu sverði framan í kóngsdóttur, „hafirðu aldrei séð hann, höggðu þá af honum höfuðið með sverðinu.“

„Hvernig ætti ég að geta það, sem þú krefst af mér?“ mælti kóngsdóttirin kveinandi, „ég er svo máttfarin, að ég get varla hreyft handleggi mína og þó ég gæti það, hvaðan ætti mér að koma áræði til að drepa ókunnugan mann og saklausan?“

„Þessi undanfærsla kemur upp um þig,“ sagði andinn, síðan veik hann sér að mér og mælti:

„Þekkir þú hana ekki?“

Hefði ég verið allra manna armastur og vanþakklátastur, hefði ég ekki sýnt kóngsdóttur slíka tryggð sem hún mér, þar sem mér var um ólán hennar að kenna.

Svaraði ég því andanum: „Hvernig ætti ég að þekkja hana, ég sem hef aldrei séð hana fyrr en nú?“

„Ef svo er“, sagði hann, „taktu þá við sverðinu og höggðu af henni höfuðið. Með því einu geturðu leyst líf þitt og sannað orð þín.“

„Ég er til“, svaraði ég, tók við sverðinu og gekk að kóngsdóttur“....


64. nótt breyta

„Þér skuluð eigi ætla, að ég hafi gengið að kóngsdótturinni frá Svartviðareyjum, til að hlýðnast skipun andans. Ég gerði það ekki til annars en að láta hana sjá á augnaráði mínu og bendingum, eins og ég fékk frekast við komið, að eins og hún hefði hug til að leggja lífið í sölurnar fyrir mig af elsku sinni, svo vílaði ég ekki fyrir mér að láta mitt fyrir hana af heitri ást.

Kóngsdóttir skildi mig; svo mikil harmkvæli, sem hún þoldi, gat ég þó séð það á hinu þakklætisfulla augnatilliti hennar; gaf hún mér þannig í skyn, að hún dæi með glöðu geði fyrir mig og væri sér hugfró, að ég hræddist ekki dauða minn hennar vegna. Þannig kemst skáld nokkurt að orði:

Augasteina eldar þylja
okkar heita kærleiks mál;
þeir, sem reyna, þetta skilja,
þannig leitar sál að sál.
Allt, sem tala tungan vildi
talað þýðu augun fá;
allt, sem falið öðrum skyldi,
elskan blíða skilur þá.
Sjónir ræða, þó við þegjum,
þeirra magnast loginn skær,
og þó bæði orðlaus þreyjum,
ástin þagnað samt ei fær.

Ég fleygði sverðinu frá mér, hvarf aftur frá kóngsdótturinni og sagði við andann: „Þá skal ég heita hvers manns níðingur, ef ég geri mig að morðingja og drep þessa konu, sem ég ekki þekki og sem er svo hörmulega útleikin og komin að dauða. Gerðu við mig hvað þú villt, andi, því ég er á þínu valdi, en grimmdarboði þínu get ég ekki hlýtt.“

„Ég sé að þið standið bæði upp í hárinu á mér,“ mælti andinn, „og storkið afbrýðisemi minni, en þið skuluð verða þess vísari, hvers vænta er af mér.“

Því næst tók óvætturin sverðið og hjó hendurnar af kóngsdótturinni, hvora eftir aðra. Var hún orðin máttvana áður og gat eigi átt langt eftir, því hana mæddi blóðrás, og á þessari hinni síðustu stund mændu augu hennar til mín.

Sá andinn það og mælti: „Þar komu augun upp ótryggð þinni!“ og hjó af henni höfuðið.

Ég stóð sem steini lostinn yfir þessari hryllilegu sjón og beið þess að nú kæmi að mér að deyja. Undir eins og ég fékk orði upp komið, brigzlaði ég andanum, að hann léti mig svo lengi kveljast af dauðaangistinni.

„Höggðu!“ sagði ég, „ég er búinn við banahögginu og bíð þess eins og hinnar mestu miskunnar, er þú getur sýnt mér.“

Í stað þess að verða við bæn minni, veik andinn sér að mér og sagði: „Þannig refsa andar konum þeim, er ótryggðar grunur liggur á, hún hefur leyft þér að vera hér hjá sér, en ég veit ekki með vissu, hvort hún hefur gert mér enn meiri svívirðingu, því væri svo, stæðir þú ekki lífs uppi. Þú skalt samt ekki komast hjá refsingu, og kjóstu því um, hvort ég eigi heldur að breyta þér í hund, asna eða apa.“

Þegar ég heyrði þetta varð ég vongóður um að geta sloppið alveg og beiddi hann svo mælandi: „Ó, þú voldugi andi, stilltu reiði þína, og fyrst þú vilt gefa mér líf, þá gerðu það með drengskap. Ég skal aldrei gleyma mildi þinni, ef þú fyrirgefur mér, eins og hinn vænsti maður fyrirgaf einum nábúa sínum, er bar til hans óslökkvandi hatur.“

„Hvernig þá?“ spurði andinn og bauðst ég til að segja söguna, en hann lét sér það líka. Væri yður það ef til vill, ekki á móti skapi, að ég segði yður hana nú upp aftur.“

65. nótt breyta

Sobeide lét annan förumunkinn skilja á sér, að hún vildi líka fegin heyra sögu þá, er hann hafði sagt andanum; sagði hann hana þá á þessa leið: