Bárðar saga Snæfellsáss/17
Kolbeinn hét stýrimaður er skip átti uppi á Borðeyri í Hrútafirði. Þar réðu þeir bræður til og tóku þar Gesti far að sumri. Létu þeir í haf þegar byr gaf. Þar fór utan Gestur og hundur hans Snati, Þórður og Solrún og Þorvaldur. Þeim gaf vel byri og komu við Þrándheim.
Þá réð Ólafur konungur fyrir Noregi Tryggvason. Þeir bræður komu á hans fund og Solrún með þeim. Þeir kvöddu konung og báðu hann veturvistar en konungur spurði hvort þeir vildu skírast láta. Þeir létu seint við því. Það fór þó fram að þeir voru skírðir og svo Solrún. Voru þau með konungi um veturinn í góðu yfirlæti. Gestur sat eftir við skip og hafði hrauktjald. Hundur hans var hjá honum en ekki manna.
Það var einn dag að konungur var kátur og mælti til Þórðar: „Hvar fékkst þú konu þessa hina vænu?“
„Út á Íslandi,“ segir Þórður.
„Hversu gamall maður ertu?“
Þórður segir: „Nítján vetra er eg.“
Konungur segir: „Þú ert rösklegur maður eða hvar þykist þú í mestri mannraun verið hafa?“
„Út á Íslandi,“ segir Þórður, „þá er eg fékk konu þessar.“
„Hver barg þér?“
„Sá heitir Gestur,“ segir Þórður.
„Fór hann hingað?“ sagði konungur.
Þórður sagði það satt vera „en vil eg segja yður hvað eg vil af yður þiggja. Eg vil gerast hirðmaður yðvar.“
„Kom þú þá Gesti á minn fund ef þú vilt gerast minn maður.“
Síðan fór Þórður á fund Gests. Var hann tregur til þess og mælti: „Ekki er eg fús til að finna konung því að mér er sagt að hann sé svo ráðgjarn að hann vill öllu ráða, jafnvel því á hvern menn trúa.“
Verður svo um síðir að Gestur fer með Þórði og kemur á konungs fund. Gestur heilsar á konung en konungur tekur honum vel.
Gestur spurði: „hvað erindum herra hafið þér við mig?“
Konungur mælti: „Slík sem við aðra menn að þú trúir á sannan guð.“
Gestur segir: „Alls ekki er mér um að láta þá trú sem hinir fyrri frændur mínir hafa haft. Er það hugboð mitt ef eg læt þann sið að eg muni ekki lengi lifa.“
Konungur mælti: „Líf manna er í guðs valdi en það skal öngum manni hlýða í mínu ríki álengdar að fága heiðinn sið.“
Gestur segir: „Líklegt þykir mér herra að yðar siður muni betri vera en fyrir heit eða kúgan læt eg ekki mína trú.“
„Svo skal vera,“ segir konungur, „því að þann veg líst mér á þig að þú munir af sjálfs þíns hendi vilja heldur þann átrúnað niður leggja en nokkurs manns harðindum og muntu ekki öldungis giftulaus vera og vertu með oss í vetur velkominn.“
Gestur þakkaði konungi sín ummæli og segist það munu þiggja. Var Gestur með konungi um hríð og ekki lengi áður hann var prímsigndur.
Líður nú svo fram til jóla.