Blaðsíða:Biskupa sögur Bindi 1.pdf/31

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

II. Þáttr af Þorvaldi víðförla Koðranssyni (bls. 33—50) finnst í Ólafs sögu Tryggvasonar, og er hann hér prentaðr eptir skinnbókinni 61 í folio í safni Árna, sömu bók og Ólafssaga í Fornmanna sögum er prentuð eptir, en til samanburðar eru höfð Nr. 53 og 54 folio; í annað þeirra vantar upphaf þáttarins, en í annað vantar allt nema upphafið; þessar bækr eru og allar alveg samhljóða; en í Flateyjarbók, og í Ólafssögu þeirri sem stendr í AM. 62 folio, er þáttrinn nokkru styttri og stundum frábrugðinn lítið eitt, og er þess getið neðanmáls. Orðfærið á þætti þessum virðist oss benda til þess, að hann sè varla ritinn fyrr en á 13. öld. Þar er tvisvar skýrskotað til Gunnlaugs; í kap. 3 segir svo: „Þenna atburð segir Gunnlaugr múnkr at hann heyrði segja sannorðan mann, Glúm Þorgilsson, en Glúmr hafði numit at þeim manni, er hèt Arnórr ok var Arndísar son”; og í kap. 7 segir enn: „þessa laxveiði gaf hann (Máni) undir kirkjuna í Holti, ok segir Gunnlaugr múnkr, at sú veiðr hafi þar jafnan síðan til legit”. Þetta hvorttveggja mun hafa staðið í Ólafssögu Gunnlaugs, og mun Gunnlaugr hafa ritað um Þorvald í sögu sinni; þetta hefir höfundr þáttarins haft fyrir augum, og þar sem enn fremr segir í kap. 7: „hjá þeirri kirkju sèr enn merki at hann hefir byggt svá sem einsetumaðr”, og litlu síðar: „því at við kirkjugarðinn sèr, at verit hefir garðhverfa nokkur … ok heitir þar síðan Mánagerði.” Af þessu þykir mega ráða, að höfundrinn hafi búið fyrir norðan og verið þar gagnkunnugr. Þess mætti og til geta, að þáttrinn væri eptir Styrmi fróða; sumstaðar lítr svo út, sem hann hafi verið frumritaðr á latínu, og kynni það að koma af því, að Ólafs saga Gunnlaugs var á latínu skrifuð. Höfundr þáttarins hefir þekkt Kristnisögu, það sýnir orðfærið á sumum stöðum, en höfúndr Kristnisögu hefir naumast þekkt annað en munnlegar sögusagnir um Þorvald. Að þáttrinn sè nokkuð seint ritaðr sýna og meðal annars slík orðatiltæki sem: „þar var mikill skáli, sem þá var víða siðr til” (bls. 41) og: „sem í þann tíma var títt, at drekka öl við eld” (bls. 42), en orðfærið og sögublærinn ber þó ljósastan vottinn,