Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/38

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

ábyrgð og hlutverkaskiptingu og í takt við heildarmynd stjórnskipulagsins sem sett er fram í frumvarpi þessu leiðir rökbundin nauðsyn til þess að öll verkefni forseta séu skilgreind sem framkvæmdarvaldsathafnir.

Í 2. mgr. er því forseti Íslands áfram talinn til handhafa framkvæmdarvalds, ásamt ráðherrum og ríkisstjórn sem fara með stjórnarathafnir.

Athugasemdir bárust um að nægja myndi að tiltaka ráðherra í þessu ákvæði og að ekki þyrfti að nefna ríkisstjórn sérstaklega. Í ljósi þess að hún mun í mikilvægum eða stefnumarkandi málum taka sameiginlegar ákvarðanir sem fjölskipað stjórnvald þótti rétt að taka hvort tveggja fram.

Í Stjórnlagaráði var rætt um að tilgreina einnig fjárstjórnarvaldið sérstaklega, enda felst fjárstjórnarvaldið ekki að öllu leyti í löggjafarvaldinu. Einnig var rætt hvort telja ætti sveitarfélög sérstaklega til handhafa framkvæmdarvalds eins og t.d. er í sænsku stjórnarskránni. Fallið var frá þessu enda eru nefnd hlutverk ekki eins veigamikil varðandi þrígreiningu ríkisvalds og hlutverk Alþingis, ríkisstjórnar, dómara og forseta, auk þess sem þau eru skýrt tilgreind í alþingiskaflanum og sveitarstjórnarkaflanum.

Um 3. gr.

Nýtt ákvæði.

Lýst er afmörkun íslensks yfirráðasvæðis. Með því er gert óheimilt að skipta ríkinu upp eins og t.a.m. er gert í sambandsríkjum á borð við Bandaríkin, Þýskaland og Spán. Greinin er samhljóða tillögu stjórnlaganefndar.[1]

Orðalagið um mörk landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu ber einnig að skilja í samræmi við þróun hafréttar á síðari hluta 20. aldar, einkum með tilkomu hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1982, og felur m.a. í sér yfirráð yfir innsævi og landgrunni. Hér er sem sagt um að ræða þau svæði þar sem strandríki hefur fullveldi, fullveldisréttindi og/eða lögsögu samkvæmt hafréttarsamningi.

Tekið er undir þau rök stjórnlaganefndar að rétt þyki að taka fram í stjórnarskrá að landið sé eitt og óskipt. Í því felst að landinu verður ekki skipt í fleiri ríki eða hluti þess skilinn frá íslenska ríkinu nema með stjórnarskrárbreytingu.

Um 4. gr.

Ákvæði 4. gr. frumvarps þessa er rýmra, styttra og byggt upp með öðrum hætti en 66. gr. núgildandi stjórnarskrár, sama efnis. Síðari helmingur 66. gr. núgildandi stjórnarskrár flyst yfir í nýtt ákvæði um dvalarrétt og ferðafrelsi í 23. gr. frumvarpsins. Markmið greinarinnar er að skilgreina ríkisborgararétt og tilgreina þau réttindi sem honum fylgja og rétt útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér.

Í 1. mgr. er fyrst kveðið á um hvað þarf til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Þar segir að hver sá sem á foreldri með íslenskt ríkisfang eigi rétt á að öðlast íslenskt ríkisfang. Er það í samræmi við þá íslensku og norrænu hefð að ríkisborgararéttur erfist frá foreldrum. Núgildandi stjórnarskrá geymir ekkert slíkt ákvæði um hvernig fólk öðlast ríkisborgararétt. Er þar látið duga að kveða á um sviptingu ríkisborgararéttar. Ekki er talið rétt að kveða einnig á um að öll börn sem fæðast í landinu fái sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt eins og tíðkast t.d.

  1. Sjá Skýrslu stjórnlaganefndar 1 2011:72.

36