Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/110

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

104

„Er hún ekki föl fyrir neitt annað“, spurði kóngur.

„Nei, það er hún ekki“ sagði Jón smali.

„En jeg má þó líklega leggja silkiklútinn minn á milli, þegar jeg kyssi merina?“ sagði kóngur.

Jú, það mátti hann, og svo fjekk hann pípuna og setti hana í pyngjuna sína, og lokaði síðan pyngjunni, og svo flýtti hann sjer heimleiðis, en þegar hann kom þangað, og ætlaði að fara að taka upp pípuna, þá hafði ekki farið betur fyrir honum en kvenfólkinu, hann hafði ekki pípuna frekar en þær, og Jón smali kom með hjerahópinn, og ekki vantaði svo mikið sem einn unga.

Kóngur var æfareiður við Jón, af því hann hafði gabbað þau öll sömun og ekki einu sinni látið hann hafa pípuna, og sagði, að nú skyldi hann missa lífið, og drotningin sagði það sama, að best væri að taka svona svikara af lífi tafarlaust.

Jóni fanst það alls ekki rjett, að fara þannig að, því hann hefði ekki gert annað en það, sem honum hefði verið sagt að gera, og hann hefði varið bakið á sjer og líf sitt eins og hann hefði best getað.

Kóngur sagði, að það væri alveg sama, en ef Jón gæti logið stóra ölkerið hans svo fult, að út úr því flóði, þá skyldi hann þyrma lífi hans.

„O, það er nú hvorki langt nje erfitt verk, og ekki verð jeg lengi að því“, sagði Jón smali. — Og svo byrjaði hann að segja frá því, hvernig honum hefði gengið frá því fyrsta, hann sagði frá kerlingunni, sem var föst á nefinu, og alt í einu sagði hann: „Nú verð jeg víst að ljúga einhverju, ef kerið á að verða fult!“ og svo sagði hann frá pípunni, sem hann fjekk, og um þernuna, sem kom til hans og vildi kaupa af honum pípuna fyrir 100 dali, og um alla kossana, sem hún varð að gjalda í kaupbæti úti í skógi, og svo talaði hann um kóngsdóttur, hvernig hún kom til hans og kysti hann svo vel fyrir pípuna, úti í skógi, án þess að nokkur sæi það nje heyrði, — „en ljúga verð jeg einhverju, ef kerið á að vera fult“, sagði Jón