117
Hjartalausi risinn
Einu sinni var konungur, sem átti sjö syni, og honum þótti svo vænt um þá, að hann gat aldrei verið án þeirra allra í einu, einn varð alltaf að vera hjá honum. Þegar þeir voru orðnir fullveðja, fóru sex þeirra út í heiminn að leita sjer að fallegum eiginkonum, en þann sjöunda vildi kóngur hafa eftir heima hjá sjer og honum áttu bræður hans að biðja göfugrar kóngsdóttur, og koma með hana. Kóngur gaf hinum sex sonum sínum fegurstu klæði, sem nokkur hafði augum litið, þau voru gullsaumuð, svo að það glampaði á þau, og einnig gaf hann hverjum um sig ágætan hest, og kostaði hver hestur mörg hundruð dali, og síðan lögðu þeir af stað. Þegar þeir svo höfðu heimsótt mörg konungsríki og litið á kóngsdæturnar þar, komu þeir loksins til kóngs nokkurs, sem átti sex dætur, og svo fallegar stúlkur höfðu þeir aldrei á æfi sinni sjeð, og svo báðu þeir þeirra, og fjekk hver sína fyrir konu, og síðan fóru þeir heim aftur, en steingleymdu alveg að þeir áttu að koma með konuefni handa bróðurnum, sem heima sat, svo hrifnir voru þeir af konuefnunum sínum.
Á heimleiðinni fóru þeir framhjá hömrum miklum, þar sem bjó ramgöldróttur risi. Um leið og þeir riðu framhjá, kom risinn út, og breytti hann þeim öllum saman í steina á stundinni, bæði kóngssonunum og unnustum þeirra og öðru föruneyti.
Kóngur beið og beið eftir sonum sínum, en hve lengi sem hann beið, þá komu þeir ekki. Hann varð mjög sorgmæddur, og sagðist varla sjá glaðan dag framar. — „Ef