Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/128

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

122

„Nú hefir hann leikið á okkur“, sagði kóngsdóttir, „en aftur skulum við reyna“. Svo tíndi hún öll fallegustu blómin, sem hún gat fundið og stráði þeim umhverfis dyrahelluna, — en hana settu þau á sinn stað, og þegar leið að kvöldi og von var á að risinn kæmi heim, skreið Randver undir rúmið aftur.

Litlu síðar kom risinn. „Svei og svei aftur, hjer er mannaþefur mikill“, sagði hann.

„Það er altaf þessi hrafn að flækjast hjer“, kvað kóngsdóttir, og risinn ljet það gott heita. En eftir stundarkorn spurði hann, hver það væri, sem hefði stráð öllu þessu blómskrúði umhverfis dyrahelluna.

„Það gerði jeg nú“, sagði kóngsdóttir.

„Hvað á það nú að þýða“, spurði risinn.

„Ó, mjer þykir svo vænt um þig, að jeg verð að géra það, þegar jeg vissi, að þú hefir hjarta þitt þar undir“, sagði kóngsdóttir.

„Það var fallega gert“, sagði þursi, „en annars er nú hjartað alls ekki þar“, bætti hann við.

Svo þegar risinn var háttaður um kvöldið, spurði kóngsdóttir aftur, hvar hjartað væri, því henni þætti svo vænt um hann, að hún mætti til með að fá að vita það.

„Æ, það er í skápnum þarna á veggnum,“ sagði risinn geispandi.

„Einmitt,“ hugsuðu þau bæði, kóngsdóttir og konungssonur, „ekki er vandi að finna það þar“.

Snemma næsta morgun fór risinn á stjá að vanda, og ekki var hann fyr farinn, en þau fóru að leita í skápnum, kóngsdóttir og Randver. En hvernig sem þau leituðu, þá fanst það ekki þar. — „Jæja, við verðum að reyna einu sinni enn“, sagði hún. Hún skrýddi nú skápinn allan með blómsveigum, og þegar leið að kvöldi, kom risinn þrammandi heim aftur, en þá var Randver auðvitað kominn undir rúmið.

„Svei, svei, hvernig stendur á þessum mannaþef hjerna“, sagði risinn.