30
ráða fram úr þessu, eins og hann hefði gert áður, og loksins ljet piltur það gott heita og lagðist til svefns. Á meðan fór fylgdarsveinninn aftur til smiðsins, og ljet enn þyngja sverði með járni, og þegar það var búið, fór hann í hesthúsið og sló hafurinn svo fast milli hornanna að hann valt út að vegg.
„Hvenær fer kóngsdóttir til kærastans í nótt?“ sagði fylgdarsveinninn.
„Klukkan eitt“, kumraði hafurinn.
Þegar leið að þeim tíma, fór fylgdarsveinninn út í hesthúsið með hattinn á höfðinu, og þegar kóngsdóttir hafði smurt hafurinn og sagt eins og hún var vön, að hann skyldi fljúga til kærastans hennar, sem biði hennar í bjarginu, þá var enn lagt af stað, hraðar en fugl flygi, og fylgdarsveinninn sat fyrir aftan kóngsdóttur, en hann var ekki ljetthentur í þetta skifti, því hann bæði kleip hana og kreisti, svo hún var öll blá og bólgin. Þau komu að berginu og hún barði þar á svo það opnaðist og þau þutu inn í bjargið til kærastans hennar. Þegar þau komu þangað, bar hún sig illa og kvartaði um það að það væri einhver sem hefði barið bæði hana og hafurinn á leiðinni, svo hún væri öll lurkum lamin. Síðan sagði hún, að biðillinn hefði líka komið með gullnistið, en hvernig hann hefði farið að því, skildi hvorki hún nje bergrisinn.
„En veistu upp á hverju jeg hefi nú fundið?“ sagði hún.
Nei, ekki gat tröllið vitað það.
„Jú“, svaraði hún, „jeg hefi sagt honum að hann verði að færa mjer það sem jeg hugsa um þangað til um matmálstíma á morgun, og það var höfuðið á þjer. Heldurðu nú góði minn, að hann geti fært mjer það?“ sagði kóngsdóttir og gældi við jötuninn.
„Það held jeg ekki“, sagði risinn, og svo sveiaði hann sjer upp á það, og hló og skrækti ógurlega af kæti, og