65
segja við þessu, og þá sagði sú elsta, að þær litu aldrei glaðan dag framar, nema þær fengju eins fallegt manntafl, eins og þær sáu í berginu blá.
Kóngurinn hjelt að það væri nú hægt að útvega þeim það, og sendi hann boð til allra bestu og listfengustu gullsmiða í landinu, að þeir skyldu smíða gulltafl handa dætrum hans. En hvernig sem þeir reyndu, þá var enginn, sem gat smíðað svoleiðis tafl. Loksins var ekki nema einn gullsmiður eftir, og það var eldgamall karl, sem ekkert hafði fengist við smíðar í mörg ár, að minsta kosti ekki gullsmíðar, en var að fikta svolítið við að smíða silfur, og rjett svo að hann gat haft ofan af fyrir sjer. Til hans fór nú hermaðurinn og bað hann að kenna sjer, og karlinum þótti svo vænt um að fá lærisvein, — því nemanda hafði hann ekki haft árum saman, — að hann náði í vínflösku neðan af kistubotni og fór að drekka með hermanninum. Það leið ekki á löngu, þangað til vínið steig karlinum til höfuðs, og þegar hermaðurinn varð þess var, fór hann að tala um það við karlinn, að hann skyldi fara og segjast geta smíðað taflið handa kóngsdætrunum. Það gerði karlinn þegar í stað. Hann hefði nú gert ýmislegt sem meira var, meðan hann var ungur og ern, sagði hann.
Þegar kóngur heyrði að það væri kominn maður, sem gæti smíðað tafl, sem dætrum hans myndi þykja nógu gott, var hann ekki lengi að koma út.
„Er það satt, sem þjer segið, að þjer getið smíðað tafl, eins og dætur mínar vilja fá“, spurði hann.
„Já, það er engin lygi“, sagði smiðurinn, og það stóð hann við.
„Það er gott“, sagði konungur, „hjer er handa þjer gull að smíða það úr, en getir þú það ekki, þá skaltu engu fyrir týna, nema lífinu, fyrst þú býður þig svona fram“, og eftir þrjá daga átti taflið að vera tilbúið.
Morguninn eftir, þegar gullsmiðurinn hafði sofið úr