Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/86

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

80

Villiendurnar tólf

Einu sinni var drotning sem fór út að aka í sleðanum sínum, þegar nýlega var fallin mjöll á jörð. Þegar hún var komin nokkuð áleiðis, fjekk hún blóðnasir og varð að stíga af sleðanum. Meðan hún stóð þar upp við limgirðingu og horfði á rautt blóðið og hvítan snjóinn, fór hún að hugsa um það, að hún ætti tólf syni og enga dóttur, og svo sagði hún við sjálfa sig: Ef jeg ætti dóttur, sem væri hvít sem mjöll og rjóð sem blóð, þá væri mjer sama um synina mína. Hún hafði varla slept orðinu, fyrr en til hennar kom galdrakerling. „Dóttur skalt þú eignast“ sagði hún „og hvít skal hún verða sem mjöllin og rjóð eins og blóð, en þá vil jeg líka fá syni þína, en þú mátt hafa þá hjá þjer þar til dóttir þín verður skírð“.

Þegar þar að kom, eignaðist drotningin dóttur, og hún var hvít eins og mjöll og rjóð sem blóð, eins og galdrakerlingin hafði lofað, og þess vegna var hún líka kölluð Mjallhvít Rósrjóð. Það varð mikill fögnuður í konungsgarði, og drottningin var frá sjer numin af gleði, en þegar hún mintist þess sem hún hafði lofað galdranorninni, ljet hún silfursmið smíða tólf silfurskeiðar, eina handa hverjum sona sinna, og svo ljet hún smíða eina í viðbót, og hana gaf hún Mjallhvít Rósrjóð. En um leið og kóngsdóttir var skírð, ummynduðust kóngssynir og urðu að tólf villiöndum, er flugu burt og sáust ekki meir.

Tólf villiendur flugu burt.

En prinsessan óx og dafnaði, varð bæði stór og falleg, en hún var oft svo undarleg í skapi og sorgmædd, og