Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/89

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

83

tæki sína, varð samt ein eftir, og hún var svo lík hinum, að þeir þektu hana ekki frá þeim. Svo litu þeir hissa hver á annan. „Þetta er skeiðin hennar systur okkar“, sögðu þeir, „og fyrst skeiðin er hjer, getur hún ekki verið langt í burtu“.

„Ef þetta er skeiðin hennar systur okkar, og hún er hjer nærri, þá skulum við refsa henni, því henni er alt að kenna það illa, sem við verðum að þola“, sagði elsti bróðirinn, og þetta hlustaði hún á undir rúminu. „Nei“, sagði sá yngsti, „það væri synd að gera henni nokkuð ilt. Hún getur ekkert gert að því, sem við verðum að þola. Ef nokkur á sök á því, þá er það móðir okkar“.

Síðan fóru þeir að leita að henni, bæði hátt og lágt, og að lokum leituðu þeir undir öllum rúmunum, og þegar þeir komu að rúmi yngsta kongssonarins, fundu þeir hana og drógu hana fram. Elsti prinsinn vildi nú aftur að henni yrði refsað, en hún bað sjer griða svo fallega: „Æ, góðu vinir, gerið það ekki“, sagði hún. „Jeg hefi leitað að ykkur í mörg ár, og ef jeg gæti frelsað ykkur, skyldi jeg gjarna gefa líf mitt fyrir ykkur“. — „Já, ef þú vilt frelsa okkur“, sögðu þeir, „þá skulum við ekkert gera þjer, því ef þú vilt gera það, þá geturðu það sjálfsagt“.

„Já, segið mjer bara, hvernig jeg get frelsað ykkur“, sagði Mjallhvít Rósrjóð, „þá skal jeg gera það; hvað sem það er“.

„Þú átt að tína fífu“, sögðu bræður hennar. „Og svo skaltu kemba, spinna og vefa vef úr fífunni, og þegar þú ert búin að því þá verður þú að sauma handa okkur tólf húfur, tólf skyrtur og tólf trefla, eitt af hverju handa hverjum okkar, og meðan þú ert að þessu, máttu hvorki tala, hlæja nje gráta; getir þú það, þá er okkur borgið.“

„En hvar á jeg að fá alla þessa fífu?“ spurði Mjallhvít Rósrjóð.

„Það skulum við sýna þjer“, sögðu þeir og svo fóru