Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/91

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

85

sjúk yfir því að hún var svo falleg, að hún sagði við kónginn: „Sjerðu það ekki að þessi stúlka, sem þú hefir komið með og sem þú ætlar að eiga, hún er galdranorn, hún hvorki hlær, talar nje grætur?“

Kóngurinn kærði sig kollóttan um hvað hún sagði, en hjelt brúðkaup og gekk að eiga Mjallhvít Rósrjóð og þau lifðu í mikilli sælu og gleði, en hún gleymdi ekki að sauma skyrturnar handa bræðrum sínum fyrir því.

Áður en árið var liðið, eignaðist Mjallhvít Rósrjóð lítinn son, og vegna þess varð gamla drottningin enn öfundsjúkari, og þegar leið á nótt, læddist hún inn til Mjallhvítar Rósrjóðar, meðan hún svaf, tók barnið frá henni og kastaði því í ormagarðinn; svo skar hún hana í fingurinn og smurði blóðinu á varir hennar, fór svo til kóngsins og sagði: „Komdu nú og sjáðu“, sagði hún, „hverskonar manneskja það er, sem þú hefir tekið þjer fyrir drottningu; nú er hún búin að tortíma sinu eigin barni“. Þá brá konunginum, og hann sagði: „Já, það hlýtur að vera satt, úr því jeg sje það með mínum eigin augum, en hún gerir það víst ekki oftar og í þetta sinn hlífi jeg henni“.

Áður en ár var liðið, eignuðust konungshjónin aftur son, og það fór alveg eins með hann og þann fyrri. Stjúpmóðir kóngsins varð enn reiðari og öfundsjúkari, og læddist inn til drotningarinnar meðan hún svaf, tók drenginn og kastaði honum í ormagarðinn, skar drottninguna í fingurinn og smurði blóðinu á munninn á henni, og svo sagði hún konunginum, að konan hans hefði líka fyrirfarið þessu barni. Þá varð konungur hryggur, svo hryggur, að enginn trúir því, og sagði: „Já, það hlýtur að vera satt, úr því jeg sje það með mínum eigin augum, en hún gerir það víst ekki oftar og jeg ætla að hlífa henni einu sinni enn“.

Áður en árið var liðið, átti Mjallhvít Rósrjóð dóttur og hana tók gamla drotningin líka og kastaði í orma-