Brennu-Njáls saga
101. kafli

Um vorið eftir fór Þangbrandur að boða kristni og Hallur með honum. En er þeir komu vestur um Lónsheiði til Stafafells þá bjó þar Þorkell. Hann mælti mest í móti trúnni og skoraði Þangbrandi á hólm. Þá bar Þangbrandur róðukross fyrir skjöldinn en þó lauk svo með þeim að Þangbrandur hafði sigur og drap Þorkel.

Þaðan fóru þeir til Hornafjarðar og gistu í Borgarhöfn fyrir vestan Heinabergssand. Þar bjó Hildir hinn gamli. Hans son var Glúmur er fór til brennu með Flosa. Þar tók við trú Hildir og hjú hans öll.

Þaðan fóru þeir til Fellshverfis og gistu að Kálfafelli. Þar bjó Kolur Þorsteinsson frændi Halls og tók hann við trú og hjú hans öll.

Þaðan fóru þeir til Breiðár. Þar bjó Össur Hróaldsson frændi Halls og tók við prímsigning.

Þaðan fóru þeir til Svínafells og tók Flosi prímsigning en hét að fylgja þeim á þingi.

Þaðan fóru þeir vestur til Skógahverfis og gistu í Kirkjubæ. Þar bjó Surtur Ásbjarnarson Þorsteinssonar Ketilssonar hins fíflska. Þeir höfðu allir verið kristnir langfeðgar.

Eftir það fóru þeir úr Skógahverfi og til Höfðabrekku. Þá spurðist allt um ferð þeirra.

Maður hét Galdra-Héðinn er bjó í Kerlingardal. Þar keyptu heiðnir menn að honum að hann skyldi deyða Þangbrand og föruneyti hans. Hann fór upp á Arnarstakksheiði og efldi þar blót mikið.

Þá er Þangbrandur reið austan þá brast í sundur jörðin undir hesti hans en hann hljóp af hestinum og komst upp á bakkann en jörðin svalg hestinn með öllum reiðingi og sáu þeir hann aldrei síðan. Þá lofaði Þangbrandur guð.