Brennu-Njáls saga
102. kafli

Guðleifur leitar nú Galdra-Héðins og finnur hann á heiðinni og eltir hann ofan að Kerlingardalsá og komst í skotfæri við hann og skýtur til hans spjóti og í gegnum hann.

Þaðan fóru þeir til Dyrhólma og áttu þar fund og boðaði Þangbrandur þar trú og kristnaði þar Ingjald son Þorkels Háeyjartyrðils.

Þaðan fóru þeir til Fljótshlíðar og boðuðu þar trú. Þar mælti mest í mót Veturliði skáld og Ari son hans og fyrir það vógu þeir Veturliða. Og er þar um kveðin vísa þessi:

Ryðfjónar gekk reynir
randa suðr á landi
beðs í bæna smiðju
Baldrs sigtólum halda.
Siðreynir lét síðan
snjallr morðhamar gjalla
hauðrs í hattar steðja
hjaldrs Vetrliða skaldi.

Þaðan fór Þangbrandur til Bergþórshvols og tók Njáll við trú og öll hjú hans. En Mörður Valgarðsson gekk mest í móti. Þeir fóru þaðan út yfir ár. Þeir fóru í Haukadal og skírðu þar Hall og var hann þá þrevetur.

Þaðan fóru þeir til Grímsness. Þar efldi flokk í móti þeim Þorvaldur hinn veili og sendi orð Úlfi Uggasyni að hann skyldi fara að Þangbrandi og drepa hann og kvað til vísu þessa:

Yggs bjálfa mun eg Úlfi
Endils um boð senda,
mér er við stála stýri
stugglaust, syni Ugga,
að gnýskúta Geitis
goðvarg fyrir argan,
þann er við rögn um regnir,
reki hann en eg annan.

Úlfur Uggason kvað aðra vísu í móti:

Tekka eg, sunds þótt sendi
sannreynir boð, tanna
hvarfs við hleypiskarfi,
Hárbarðs véa fjarðar.
Erat ráfáka rækis,
röng eru mál á gangi,
sé eg við mínu meini,
mínlegt flugu að gína.

„Og ætla eg ekki,“ sagði Úlfur, „að vera ginningarfífl hans. En gæti hann að honum vefjist eigi tungan um höfuð.“

Og eftir það fór sendimaður aftur til Þorvalds hins veila og sagði honum orð Úlfs. Þorvaldur hafði margt manna um sig og hafði það við orð að sitja fyrir þeim á Bláskógaheiði.

Þeir Þangbrandur og Guðleifur riðu úr Haukadal. Þeir mættu manni einum er reið í mót þeim.

Sjá spurði að Guðleifi og er hann fann hann mælti hann: „Njóta skalt þú Þorgils bróður þíns á Reykjahólum að eg vil gera þér njósn að þeir hafa margar fyrirsátir og það með að Þorvaldur hinn veili er með flokk sinn við Hestlæk í Grímsnesi.“

„Ekki skulum vér ríða að síður,“ segir Guðleifur, „til fundar við hann.“

Og sneru þeir síðan ofan til Hestlækjar. Þorvaldur var þá kominn yfir lækinn.

Guðleifur mælti til Þangbrands: „Hér er nú Þorvaldur og hlaupum nú að honum.“

Þangbrandur skaut spjóti í gegnum Þorvald en Guðleifur hjó á öxlina og frá ofan höndina og var það hans bani.

Eftir það ríða þeir á þing upp og hafði svo nær að frændur Þorvalds mundu ganga að þeim. Veittu þeir Njáll og Austfirðingar Þangbrandi. Hjalti Skeggjason kvað kviðling þenna:

Spari eg eigi goð geyja.
Grey þykir mér Freyja.
Æ mun annað tveggja
Óðinn grey eða Freyja.

Hjalti fór utan um sumarið og Gissur hvíti. En skip Þangbrands braut austur við Búlandsnes og hét skipið Vísundur.

Þangbrandur fór allt vestur um sveitir.

Steinunn kom í mót honum, móðir Skáld-Refs. Hún boðaði Þangbrandi heiðni og taldi lengi fyrir honum. Þangbrandur þagði meðan hún talaði en talaði lengi eftir og sneri því öllu er hún hafði mælt í villu.

„Hefir þú heyrt það,“ sagði hún, „er Þór bauð Kristi á hólm og þorði Kristur eigi að berjast við Þór?“

„Heyrt hefi eg,“ segir Þangbrandur, „að Þór var ekki nema mold og aska ef guð vildi eigi að hann lifði.“

„Veist þú,“ segir hún, „hver brotið hefir skip þitt?“

„Hvað segir þú til?“ segir hann.

„Það mun eg segja þér,“ segir hún:

Braut fyrir bjöllu gæti,
bönd ráku val strandar,
mögfellandi mellu,
mástalls, Vísund allan.
Hlífðit Kristr, þá er kneyfði
knörr, málmfeta varra.
Lítt ætla eg að guð gætti
Gylfa hreins að einu.

Og enn kvað hún aðra vísu:

Þór brá Þvinnils dýri
Þangbrands úr stað löngu,
hristi búss og beysti
barðs og laust við jörðu.
Muna skíð um sjá síðan
sundfært Atals grundar,
hregg því að hart tók leggja,
hánum kennt, í spánu.

Eftir það skildu þau Þangbrandur og Steinunn og fóru þeir vestur til Barðastrandar.