Brennu-Njáls saga/115
Flosi spyr víg Höskulds mágs síns og fær honum það mikillar áhyggju og reiði og var hann þó vel stilltur. Honum var sagður málatilbúnaður sá sem hafður hafði verið eftir víg Höskulds og lét hann sér fátt um finnast. Hann sendi orð Halli af Síðu mági sínum og Ljóti syni hans að þeir skyldu fjölmenna mjög til þings. Ljótur þótti best höfðingjaefni austur þar. Honum var það fyrir spáð ef hann riði þrjú sumur til þings og kæmi hann heill heim að þá mundi hann verða mestur höfðingi í ætt sinni og elstur. Hann hafði þá riðið eitt sumar til þings en nú ætlaði hann annað. Flosi sendi orð Kol Þorsteinssyni og Glúmi syni Hildis hins gamla, Geirleifi syni Önundar töskubaks og Móðólfi Ketilssyni og riðu þeir allir til móts við Flosa. Hallur hét og að fjölmenna mjög.
Flosi reið þar til er hann kom í Kirkjubæ til Surts Ásbjarnarsonar. Þá sendi Flosi eftir Kolbeini Egilssyni bróðursyni sínum og kom hann þar.
Þaðan reið hann til Höfðabrekku. Þar bjó Þorgrímur skrauti son Þorkels hins fagra.
Flosi bað hann ríða til alþingis með sér en hann játaði ferðinni og mælti til Flosa: „Oftar hefir þú glaðari verið bóndi en nú og er þó nokkur vorkunn á þó að svo sé.“
Flosi mælti: „Það hefir nú víst að hendi borið er eg mundi gefa til mikla mína eigu að það hefði eigi fram komið. Er illu korni til sáið enda mun illt af gróa.“
Þaðan reið hann um Arnarstakksheiði og á Sólheima um kveldið. Þar bjó Löðmundur Úlfsson. Hann var vinur Flosa mikill. Flosi var þar um nóttina. En um morguninn reið Löðmundur með honum í Dal og voru þar um nótt. Þar bjó Runólfur son Úlfs aurgoða.
Flosi mælti til Runólfs: „Hér munum vér hafa sannar sögur um víg Höskulds Hvítanesgoða. Ert þú maður sannorður og kominn nær frétt og mun eg því trúa öllu er þú segir mér frá hvað til saka hefir orðið með þeim.“
Runólfur mælti: „Ekki þarf það orðum að fegra að hann hefir meir en saklaus veginn verið og er hann öllum mönnum harmdauði. Þykir engum jafnmikið sem Njáli fóstra hans.“
„Þá mun þeim verða illt til liðveislumanna,“ segir Flosi.
„Svo mun það,“ segir Runólfur, „ef ekki dregur til.“
„Hvað er nú að gert?“ segir Flosi.
„Nú eru kvaddir búar,“ segir Runólfur, „og lýst víginu.“
„Hver gerði það?“ segir Flosi.
„Mörður Valgarðsson,“ segir Runólfur.
„Hve trútt mun það?“ segir Flosi.
„Skyldur er hann mér,“ segir Runólfur, „en þó mun eg satt frá segja að fleiri hljóta af honum illt en gott. Þess vil eg nú biðja þig Flosi að þú gefir ró reiði og takir það upp að minnst vandræði hljótist af því að Njáll mun góð boð bjóða og aðrir hinir bestu menn.“
Flosi mælti: „Ríð þú þá til þings Runólfur og skulu mikið þín orð mega við mig nema til verra dragi um en vera skyldi.“
Síðan hætta þeir talinu og hét Runólfur ferðinni. Runólfur sendi orð Hafri hinum spaka frænda sínum. Hann reið þegar þangað.
Flosi reið þaðan í Ossabæ.