Brennu-Njáls saga/127
Nú er þar til máls að taka að Bergþórshvoli að þeir Grímur og Helgi fóru til Hóla, þar voru þeim fóstruð börn, og sögðu það föður sínum að þeir mundu ekki heim um kveldið.
Þeir voru í Hólum allan daginn. Þar komu konum fátækar og kváðust komnar að langt. Þeir bræður spurðu þær tíðinda. Þær kváðust engi kunna tíðindi að segja „en segja kunnum vér nýlundu nokkura.“
Þeir spurðu hverja nýlundu þær segðu og báðu þær eigileyna. Þær sögðu svo vera skyldu.
„Vér komum að ofan úr Fljótshlíð og sáum vér Sigfússonu alla ríða með alvæpni og stefnu þeir upp á Þríhyrningshálsa og voru fimmtán í flokki. Vér sáum og Grana Gunnarsson og Gunnar Lambason og voru þeir fimm saman. Þeir stefndu hina sömu leið. Og kalla má að nú sé allt á för og á flaug um héraðið.“
Helgi Njálsson mælti: „Þá mun Flosi kominn austan og munu þeir allir komnir til móts við hann og skulum við Grímur vera þar sem Skarphéðinn er.“
Grímur kvað svo vera skyldu og fóru þeir heim.
Þenna aftan hinn sama mælti Bergþóra til hjóna sinna: „Nú skuluð þér kjósa yður mat í kveld að hver hafi það er mest fýsir til því að þenna aftan mun eg bera síðast mat fyrir hjón mín.“
„Það skyldi eigi vera,“ sögðu þeir er hjá voru.
„Það mun þó vera,“ segir hún, „og má eg miklu fleira af segja ef eg vil og mun það til merkja að þeir Grímur og Helgi munu heim koma í kveld áður menn eru mettir. Og ef þetta gengur eftir þá mun svo fara fleira sem eg segi.“
Síðan bar hún mat á borð.
Njáll mælti: „Undarlega sýnist mér nú. Ég þykist sjá um alla stofuna og þykir mér sem undan séu gaflveggirnir báðir en blóð eitt allt borðið og maturinn.“
Öllum fannst þá mikið um öðrum en Skarphéðni. Hann bað menn ekki syrgja né láta öðrum herfilegum látum svo að menn mættu orð á því gera „mun oss vandara gert en öðrum að vér berum oss vel og er það jafnt að vonum.“
Þeir Grímur og Helgi komu heim áður borð voru ofan tekin og brá mönnum mjög við það. Njáll spurði hví þeir færu svo hverft en þeir sögðu slíkt sem þeir höfðu frétt. Njáll bað engan mann til svefns fara og vera vara um sig.