Brennu-Njáls saga
14. kafli

Þeir bræður fjölmenna mjög til veislunnar og höfðu valið lið. Þeir riðu vestur til Dala og komu á Höskuldsstaði og var þar fjölmenni mikið fyrir. Skipuðu þeir Höskuldur og Hrútur annan bekk en brúðgumi annan. Hallgerður sat á palli og samdi sér vel. Þjóstólfur gekk með reidda öxi og lét hið dólglegasta og lét það engi sem vissi.

En er boði var lokið fór Hallgerður suður með þeim. En er þau komu suður til Varmalækjar þá spurði Þórarinn Hallgerði ef hún vildi taka við búráðum.

„Eigi vil eg það,“ segir hún.

Hallgerður sat mjög á sér um veturinn og líkaði við hana ekki illa.

En um vorið töluðu þeir um fjárhagi sína bræður og mælti Þórarinn: „Eg vil gefa ykkur upp búið að Varmalæk því að ykkur er það hægst um hönd. En eg mun fara suður í Laugarnes og búa þar. En Engey skulum við eiga báðir saman.“

Glúmur vildi að svo væri. Fór Þórarinn suður byggðum en þau bjuggu þar eftir. Réð Hallgerður sér hjón. Hún var örlynd og fengsöm. En um sumarið fæddi hún meybarn. Glúmur spurði Hallgerði hvað heita skyldi.

„Hana skal kalla eftir föðurmóður minni og skal heita Þorgerður því að hún var komin frá Sigurði Fáfnisbana í föðurætt sína að langfeðgatölu.“

Mærin var vatni ausin og þetta nafn gefið. Hún óx þar upp og gerðist lík móður sinni að yfirlitum. Þau sömdust vel við Glúmur og Hallgerður og fór svo fram um hríð.

Þau tíðindi spurðust úr Bjarnarfirði norðan að Svanur hafði róið að veiðiskap um vorið og kom að þeim austanveður mikið og rak þá upp að Veiðilausu og týndust þar. En fiskimenn þeir er voru í Kaldbak þóttust sjá Svan ganga inn í fjallið Kaldbakshorn og var honum vel þar fagnað en sumir mæltu því í mót og kváðu engu gegna en það vissu allir að hann fannst hvorki lífs né dauður. En er Hallgerður spurði þessi tíðindi þótti henni skaði mikill eftir móðurbróður sinn.

Glúmur bauð Þórarni að skipta um löndin.

Hann kveðst eigi það vilja „en seg þú Hallgerði ef eg lifi þér lengur að eg ætla mér Varmalæk.“

Glúmur segir Hallgerði.

Hún svaraði: „Maklegur er Þórarinn þess frá oss.“