Brennu-Njáls saga
141. kafli

Það var einn dag að menn gengu til Lögbergs og var svo skipað höfðingjum að Ásgrímur Elliða-Grímsson og Gissur hvíti, Guðmundur hinn ríki og Snorri goði voru uppi hjá Lögbergi en Austfirðingar stóðu niðri fyrir. Mörður Valgarðsson stóð hjá Gissuri hvíta mági sínum. Mörður var allra manna málsnjallastur. Gissur mælti þá að hann skyldi lýsa vígsökinni og bað hann mæla svo hátt að vel mætti heyrast.

Mörður nefndi sér votta. „Nefni eg í það vætti,“ segir hann, „að eg lýsi lögmætu frumhlaupi á hönd Flosa Þórðarsyni er hann hljóp til Helga Njálssonar á þeim vettvangi er Flosi Þórðarson hljóp til Helga Njálssonar og veitti honum holundarsár eða heilundarsár eða mergundarsár það er að ben gerðist en Helgi fékk bana af. Tel eg hann eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Tel eg sekt fé hans allt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Lýsi eg vígsök þessi til fjórðungsdóms þess er sökin á í að koma að lögum. Lýsi eg löglýsing. Lýsi eg í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsi eg nú til sóknar í sumar og til sektar fullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsi eg handseldri sök Þorgeirs Þórissonar.“

Að Lögbergi var ger mikill rómur að því að honum mæltist vel og skörulega.

Mörður tók til máls í annað sinn. „Nefni eg yður í það vætti,“ segir hann, „að eg lýsi sök á hönd Flosa Þórðarsyni um það er hann særði Helga Njálsson holundarsári eða heilundarsári eða mergundarsári, því sári er að ben gerðist, en Helgi fékk bana af á þeim vettvangi er Flosi Þórðarson hljóp til Helga Njálssonar lögmætu frumhlaupi áður. Tel eg þig, Flosi, eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Tel eg sekt fé þitt allt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir þig að lögum. Lýsi eg sök þessi til fjórðungsdóms þess er sökin á í að koma að lögum. Lýsi eg löglýsing. Lýsi eg í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsi eg nú til sóknar í sumar og sektar fullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsi eg handseldri sök Þorgeirs Þórissonar.“

Síðan settist Mörður niður. Flosi gaf gott hljóð til og mælti ekki orð meðan.

Þorgeir skorargeir stóð upp og nefndi sér votta: „Nefni eg íþað vætti að eg lýsi sök á hönd Glúmi Hildissyni um það er hann tók eld og kveikti og bar í hús inn að Bergþórshvoli þá er þeir brenndu inni Njál Þorgeirsson og Bergþóru Skarphéðinsdóttur og þá menn alla er þar brunnu inni. Tel eg hann eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Tel eg sekt fé hans allt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Lýsi eg sök þessi til fjórðungsdóms þess er sökin á í að koma að lögum. Lýsi eg löglýsing. Lýsi eg í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsi eg nú til sóknar í sumar og til sektar fullrar á hönd Glúmi Hildissyni.“

Kári Sölmundarson sótti Kol Þorsteinsson og Gunnar Lambason og Grana Gunnarsson og var það mál manna að honum mæltist furðulega vel. Þorleifur krákur sótti Sigfússonu alla en Þorgrímur hinn mikli bróðir hans sótti Móðólf Ketilsson og Lamba Sigurðarson og Hróar Hámundarson, bróður Leiðólfs hins sterka. Ásgrímur Elliða-Grímsson sótti Leiðólf og Þorstein Geirleifsson, Árna Kolsson og Grím hinn rauða og mæltist þeim öllum vel. Síðan lýstu aðrir menn sökum sínum og var það lengi dags að því gekk. Fóru menn þá heim til búða sinna.

Eyjólfur Bölverksson gekk til búðar með Flosa. Þeir gengu austur um búðina.

Flosi mælti til Eyjólfs: „Hvort sérð þú nokkura vörn í málum þessum?“

„Enga,“ segir Eyjólfur.

„Hvað er nú til ráðs?“ segir Flosi.

„Nú er úr vöndu að ráða,“ segir Eyjólfur, „en þó mun eg til leggja nokkur ráð enn með yður. Nú skalt þú selja af höndum goðorð þitt og í hendur Þorgeiri bróður þínum en þú segist í þing með Áskatli goða Þorketilssyni norðan úr Reykjardal. En ef þeir vita þetta eigi þá má vera að þeim verði að þessu mein því að þeir munu sækja í Austfirðingadóm en þeir ættu í Norðlendingadóm að sækja og mun þeim þetta yfir sjást. Og er fimmtarsdómsmál á þeim ef þeir sækja í annan dóm en vera á. Skulum vér það mál þá upp taka og þó að síðasta kosti.“

Flosi mælti: „Vera má að oss sé nú launaður hringurinn.“

„Eigi veit eg það,“ segir Eyjólfur, „en veita skal eg yður til laga svo að það sé mál manna að eigi sé von framar. Skalt þú nú senda eftir Áskatli en Þorgeir skal nú þegar koma til þín og einn maður með honum.“

Litlu síðar kom Þorgeir þar og tók við goðorðinu. Þá kom þar og Áskell. Sagðist Flosi þá í þing með honum. Var þetta nú ekki á fleiri manna vitorði en þeirra.